09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

119. mál, vegamál

Sigurður Sigurðsson:

Það vill oft verða svo, þegar minst er á vegamál, að þá þurfa margir að leggja orð í belg. Upphaflega ætlaði jeg mjer alls ekki að tala í þessu máli, en nú hafa umr. snúist þannig, að jeg verð að segja nokkur orð.

Hv. frsm. (G. Sv.) virtist hafa margt á móti brtt. á þgskj. 300. En þar er farið fram á að athuga, hvort ekki sje rjett, að viðhaldi flutningabrauta verði ljett af sýslusjóðunum og kostað af landssjóði. Skildi hann þessa tillögu svo, að hún ætti við allar flutningabrautir. Hins vegar mátti einnig skilja ræðu hv. frsm. (G. Sv.) svo, að hann teldi, að rjett væri að ljetta þeim flutningabrautum af sýslusjóðum, sem fremur mæltu heita alþjóðarvegir en hjeraðsbrautir. Þykist jeg vita, að hann hafi þar haft í huga brautina austur um sveitir — Flóa og Holt — því hún má miklu fremur heita þjóðbraut heldur en flutningabraut einstakra hjeraða. Jeg get t. d. bent á að í Árnessýslu eru 16 hreppsfjelög, en af þeim nota nokkuð verulega að eins 3 hreppar brautina yfir Flóann. Hins vegar er vegurinn mest notaður af Rangæingum, Vestur-Skaftfellingum og Reykjavíkurbúum. Það er því ekki nema rjett að athuga, þar sem svona stendur á, hvort ekki sje sanngjarnt og rjettlátt að ljetta viðhaldi slíkrar brautar af sýslufjelaginu og færa það yfir á landssjóð.

Nú þykist jeg enn fremur skilja, að hv. flm. till. á þgskj. 300 (P. O. og P. Þ.) hafi sjerstaklega haft í huga Borgarfjarðarbrautina og brautina austanfjalls, milli brúnna, þótt þeir hafi orðað till. alment. Og það er kunnugt, að þær brautir geta miklu fremur skoðast alþjóðarvegir en hjeraðsbrautir. Um Borgarfjarðarbrautina fara allir þeir, sem eiga leið norður yfir Holtavörðuheiði, eða koma að norðan, og eins þeir, er fara vestur í Dali eða koma þaðan. Er því líkt á komið með brautina í Borgarfirði og brautina austanfjalls. Þær eru í raun og veru þjóðleiðir. Brautin austur um sveitir er sambandsbraut eða tengiliður milli hjeraðanna eystra (Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslna) og Reykjavíkur Jeg sje því enga ástæðu til annars en að samþ. brtt., þar sem jeg þykist vita, að átt sje við þessar brautir sjerstaklega.

Hv. frsm. (G. Sv.) mintist á nokkrar fjárhæðir, sem varið hefði verið til vegabóta í ýmsum sýslum. Jeg veit, að hann hefir ekki verið að nefna þessar tölur í þeim tilgangi, að telja það fje eftir. En viðvíkjandi því, sem hann sagði um Árnessýslu, þá er það athugandi, að það er fjölmennasta hjerað landsins, þegar stærstu kaupstaðirnir eru undanskildir. Auk þess er þessi sýsla mjög víðáttumikil. Og bókstaflega sagt, þá voru þar engir vegir af náttúrunnar hendi. Mátti heita, að sumsstaðar væri illkleift að ferðast á milli bæja og sveita áður en vegirnir komu. Og eftir þeim kröfum, sem nú eru gerðar hjer á landi mundi þetta hjerað naumast teljast byggilegt, ef vegir þeir, sem gerðir hafa verið, hyrfu einn góðan veðurdag“.

Loks vil jeg geta þess, að áskoranir til stjórnarinnar, svipaðs efnis og þessi, eru ekki nýjar. Þær hafa oft verið gerðar hjer áður, en aldrei borið neinn árangur til þessa. Árið 1915 var samþykt þingsályktunartill. þess efnis, að skora á stjórnina að láta endurskoða vegalögin og breyta flokkun veganna. En þessu var engu sint. Á síðasta þingi var samþykt áskorun til stjórnarinnar í 5 liðum, og sumir þeirra miðuðu í sömu átt og till. á þgskj. 300. En mjer vitanlega hefir ekkert komið frá stjórninni þess efnis. Málshátturinn gamli segir, að ekki sje fullreynt fyr en í þriðja sinn. Nú er þessi áskorun komin fram í þriðja sinn, og vonandi hefir hún nú einhver áhrif.

Jeg vænti, að till. á þgskj. 300 verði samþykt, sjerstaklega þegar tekið er tillit til, að þótt orðlagið sje alment þá er þó sjerstaklega átt við þessar tvær áðurnefndu brautir.