09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (2455)

119. mál, vegamál

Björn R. Stefánsson:

Jeg get ekki stilt mig um að segja nokkur orð út af ræðu hv. frsm. (G. Sv.), og sjerstaklega því atriði, er hann var að telja upp, hversu mikið fje hefði farið í vegabætur til Suður-Múlasýslu í samanburði við aðrar sýslur. Mest af því fje, sem hann nefndi, hefir farið til byggingar Fagradalsbrautarinnar og ætti því að teljast til beggja Múlasýslna — skiftast milli þeirra. Fagradalsbrautin liggur að vísu öll í Suður-Múlasýslu, en er aðallega notuð af 6 hreppum, en af þeim eru 4 í Norður-Múlasýslu, en að eins 2 í Suður-Múlasýslu. Jeg vil sömuleiðis vekja athygli annara hv. þm. á, að þessi skýrsla, er hann fór eftir, nær frá 1876–1916, en síðan hefir sama og ekkert verið veitt til vegagerða í Suður-Múlasýslu, en mikið fje til annara hjeraða. Skal jeg enn fremur nefna, að fjárlögum 1913 fylgdi skýrsla frá hr. Jóni Þorlákssyni, sem þá var vegamálastjóri þar sem ólagðir vegir eru flokkaðir niður eftir því, í hvaða röð skuli leggja þá. Í þessari skýrslu er að eins 10–15 kílóm. langur vegspotti í Suður-Múlasýslu í fyrsta flokki, en þessi vegspotti er ekki kominn enn, enda er það einasti vegspottinn, sem var í fyrsta flokki þessarar skýrslu, sem ekki er enn þá farið að vinna að eða búið að veita fje til.

Þá verð jeg líka að benda háttv. þm. á það, að fjárframlög Sunnmýlinga eru mun meiri en ráða mætti, að því sem sjeð verður á tillagi þeirra til sýsluvega. Þess ber að gæta, að í Suður-Múlasýslu eru líklega meiri hreppavegir en í nokkurri annari sýslu. Inn í sýsluna skerast margir langir firðir; er mjög ógreiður vegur fram með þeim, og við fjallsendana víða skriður frá fjalli til fjöru. Fram með þessum fjörðum er allmikil umferð, svo ekki verður hjá því komist að halda vegum þessum færum. Gengur árlega til þess mikil vinna, því þó vegir þessir sjeu gerðir færir á hverju vori, þarf að bæta um það — helst eftir hverja stórrigningu, því þá hleypur á ný í þessum skriðum, en stórrigningar eru alltíðar á Austurlandi, eins og kunnugt er. Það er svo fjarri því, að skylduhreppsvinnan nægi til þessara vegalagfæringa. Hrepparnir verða því — auk hennar — árlega að leggja mikil útgjöld á sig til þess að halda þeim við, en það er aftur ástæðan til þess, að þeir hafa kynokað sjer við að hækka hjá sjer sýslusjóðsgjaldið að nokkrum verulegum mun. Álögur þeirra á sjálfa sig til vegagerða eru samt ekki minni en annara, þó ekki sjáist það af framlögum þeirra til sýsluveganna.

Þessar upplýsingar taldi jeg nauðsynlegt — út af skýrslu þeirri, sem hv frsm. (G. Sv.) var með — að gefa hv. deildarm., því þess var ekki að vænta, að þeir, án þess veittu því eftirtekt, heldur kynni að byggja á skýrslunni. Tölurnar eru altaf taldar ólýgnar, en þegar vantar í þær eru þær villandi, þó þær sjeu rjettar það sem þær ná.

Jeg tel varhugavert að ljetta viðhaldi vega að öllu leyti af hlutaðeigandi sýslum. Jeg veit, að mig og fleiri brestur kunnugleika til að dæma um, hvar sú þörf væri brýnust, þó sú leið yrði farin. En þetta gæti orðið til þess, að menn ljetu ýmsa þá vegi ganga fyrir, sem ættu að rjettu lagi að sitja á hakanum, því að hætt er við, að menn yrðu um skör fram áfjáðir í fje úr landssjóði til viðhalds og aukningar vegum, er þeir bera ekki sjálfir neinn kostnað af vegunum. Gæti þá oltið meira á óbilgirni hlutaðeigandi þm. til hrossakaupa en á þörf og sanngirni.