09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2207 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

119. mál, vegamál

Pjetur Ottesen:

Aðalröksemdirnar, sem hv. frsm. (G. Sv.) hefir fært fram móti viðaukatillögu minni og þm. Mýra. (P. Þ.), eru þær, að till. væri komin fram af hreppapólitík hjá okkur, en þessu vil jeg mótmæla harðlega. Þetta sýnir að eins röksemdaþrot hv. frsm. (G. Sv.). Jeg tók það greinilega fram, að það yrði að sjálfsögðu á valdi vegamálastjóra að gera tillögur um það, ef til kæmi, hvar þörfin væri mest að ljetta viðhaldinu af. Og jeg skil ekki, að það þurfi að væna þann heiðursmann um neina hreppapólitík í þessum málum. Jeg get alveg eins vel núið hv. frsm. því um nasir, að mótmæli hans gegn till. sjeu sprottin af hreppapólitík, því till. mundi, ef samþ. væri, ef til vill ekki gefa honum fyrirheit beinlínis um fje í hans kjördæmi.

Þá vildi hann fetta fingur út í orðalagið á till. Jeg gerði ekki ráð fyrir, að þessi liður yrði fremur skilinn bókstaflega en hinir liðir till. En hann er samstæður þeim um orðalag.

Þetta er því bara orðhengilsháttur hjá hv. frsm. (G. Sv.).