13.08.1919
Efri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

119. mál, vegamál

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Hv. þm. Ak. (M. K.) gat þess, að nú væri frv. á leiðinni, sem miðaði að því, að auka hjeruðunum tekjur til vegagerða. Hann mun þar eiga við frv. um heimild til að hækka sýsluvegagjaldið. Jeg hygg, að jeg megi segja, fyrir hönd samgöngumálanefndanna að þær ætli þetta ekki heppilega leið til að afla fjár til vegagerða, enda myndi þessi hækkun hrökkva skamt. Jeg geri og ráð fyrir, að margir muni því mótfallnir að hækka sýsluvegagjaldið. Því að það er að minsta kosti enn órannsakað, hvort gjald þetta sje lagt á með sanngirni og eftir sönnu gjaldþoli hreppanna. Því er þannig skift niður á hreppana, að það er reiknað eftir saman lagðri tölu ábúðar- og lausafjárhundraða að 2/3 en eftir vinnufærum karlmönnum að 1/3 hluta. Mun það óvíða koma niður sem jafn nefskattur á öllum. Jeg fyrir mitt leyti álít það miklu betra, eins og nú stendur á, að afnema sýsluvegagjaldið alveg, en greiða allan kostnað við vegina beint úr sýslusjóði, og afla þess fjár á sama hátt sem annara tekna sýslusjóðanna. Þetta er auðvitað álitamál, en því meiri er ástæðan til þess að athuga það vandlega og reyna að komast að sanngjarnri niðurstöðu. En sanngjarnt er það, sem best finnur gjaldþol hjeraðanna.

Jeg get verið sammála hv. þm. Ak (M. K.), að liðurinn sje ekki sem best orðaður, og væri fyllilega nóg að segja „rjett“, í stað „rjettmætt“.