19.08.1919
Neðri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

129. mál, rannsókn símaleiða

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Samgöngumálanefnd hefir leyft sjer að taka upp á þgskj. 366 og draga saman till. þær, sem til hennar hefir verið vísað, um rannsókn símaleiða. Þessar till. voru alls 3, en auk þeirra hefir nefndin tekið upp í till. 2 atriði í viðbót, sem henni bárust og hún gekk inn á.

Fyrsta atriðið er fullnaðarrannsókn á aðalsímaleiðinni sunnanlands, milli Víkur og Hornafjarðar. Landssímastjóri lagði mikla áherslu á, að þetta væri tekið með.

Annað atriðið er frá háttv. þm. Árn. (S. S. og E. A.). En jeg vil taka fram, að nú er kominn inn í aukafjárlög í hv. Ed. kostnaður við lagningu símalínu frá Kiðjabergi að Minni-Borg. (S. S.: Það er nú minst af leiðinni). Það mun vera, en það kemur þó undarlega fyrir, að biðja fyrst um rannsókn, en koma því svo inn í aukafjárlög á sama þingi til framkvæmda. En annars hygg jeg ekki, að neitt sje um þetta að segja. Landssímastjóri mun hafa ákveðið leiðina.

En þá er eitt atriði, um leiðina að Arnarstapa á Snæfellsnesi. Nefndin vill ekki ákveða nánar, hvernig línan skuli liggja, en það mun vera annaðhvort frá Búðardal eða Ólafsvík. Landsímastjórinn hefir kosið, að þetta sje óákveðið.

Nefndin er yfirleitt sammála um, að þessi rannsókn sje sjálfsögð, og landssímastjóri sömuleiðis. Þess vegna er ekki um annað að ræða en að samþykkja till. eins og hún liggur fyrir. Þar sem landssímastjóri gengur inn á, að sími skuli koma, verður fyrst að rannsaka leiðina. Þar á eftir er fyrst hægt að hefja framkvæmdir. En það er annað mál, hve fljótt búið verður að rannsaka og hægt er að byrja framkvæmdir.

Sem sagt mælir nefndin með því, að þessar leiðir sjeu rannsakaðar.