29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2220 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

89. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það fór að vonum að flm. byggist við, að málið yrði vakið af stjórninni á þessu þingi. Jeg hafði hugsað mjer að hreyfa málinu nú á þinginu og skýra frá afstöðu stjórnarinnar, en var að bíða eftir tækifæri. Tækifærið er nú komið.

Jeg veit, að bændum er mjög ríkt í huga að fá lánsstofnun, til þess að geta rekið landbúnaðinn á heppilegri hátt en kostur hefir verið á hingað til. Því að ekki er hægt að gera ráð fyrir neinum stórfeldum umbótum á landbúnaðinum, t. d. breytingu á áhöldum o. þ. u. l. — sem mikil nauðsyn er þó á — án hagkvæmari lánskjara en hann hefir átt kost á til þessa.

Þetta hefir stjórnin líka sjeð, ekki síst jeg sem er gamall bóndi, og henni hefir verið ríkast í huga, hvernig kleift væri að bæta úr þessu. Bótin er ekki enn þá komin, og þá er að íhuga ástæðurnar, sem að því liggja.

Hjer á landi er lítið um bankafróða menn. En stjórnin ræddi málið við Búnaðarfjelagið, til þess að reyna að fá drög til frv. um slíka lánsstofnun. En Búnaðarfjelagið gat ekki gefið neinar bendingar í þessa átt.

Þá sneri stjórnin sjer til Landsbankans, sem er best kunnugt um þörf landbúnaðarins. Þegar bankastjórarnir fóru utan síðastliðinn vetur, lagði stjórnin ríkt á við þá að kynna sjer slíkar lánsstofnanir í Danmörku. Þær hafa lengi átt góðu gengi að fagna þar í landi, en verið með ýmiskonar sniði, og var ráð fyrir gert, að þeir veldu það formið, sem hjer hentaði best. En þegar þeir fóru að athuga málið, komust þeir að raun um, að það krafði miklu lengri tíma en þeir höfðu ráð á.

Það landið, sem mestan fróðleik getur látið oss í tje í þessum efnum, hefir verið og er lokað. Hjer á jeg við Þýskaland. Stjórnin vildi ekki hrófla upp neinni frumvarpsmynd, af meiri eða minni þekkingarskorti á málinu. Því hefir hún ekki sjeð sjer fært að leggja málið fyrir þetta þing. Að mínu áliti þarf þingið að fá mann með sjerþekkingu, senda hann utan, til þess að kynna sjer málið, og ætti hann síðan að undirbúa það í samráði við stjórnina. Þessu ætti að geta verið lokið fyrir næsta þing. En stjórnin hefir ekkert fje til þess. Það ætti að vísu að vera vel liðið, þó að stjórnin verði einhverju fje til þess, en hún hefir samt ekki treystst til að leggja frv. í þá átt fyrir þetta þing.

Jeg býst við, að hv. þingdeild sje nú ljóst, að það er ekki að kenna vanhirðu hjá stjórninni, að máli þessu er ekki komið lengra en raun er á. Hv. flm. stakk upp á, að málinu væri vísað til landbúnaðarnefndar. Jeg vil bæta við þessa till., að landsstjórninni verði heimilað að verja fje til framkvæmda málsins.