21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

89. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Jeg skal taka það fram í sambandi við ræðu hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.), að jeg sje enga ástæðu til að taka málið út af dagskrá fyrir það, þótt ekki sje í till. heimild fyrir stjórnina að verja fje til undirbúnings málinu. Þetta atriði kom til tals í nefndinni, og leit hún svo á, að ekki mundi þurfa að verja svo miklu fje til þessa undirbúnings, að nokkur vafi mundi verða á að fá samþykki þingsins. Jeg sje þess vegna enga ástæðu til að málið sje tekið út af dagskrá.

Þá ætla jeg ekki að deila við hv. 1 þm. G.-K. (B. K.), því að jeg játa, að mig brestur þekkingu á þessu máli til jafns við hann. En mjer skildist á ræðu hans, að úrræðin mundu verða fá, og kemur manni það ekki verulega á óvart Hann sá helst enga leið; taldi leiðir þær, sem nefndin hafði stungið upp á, vera ófærar, og vildi því að eins halda veðdeildarlánunum áfram. En jeg hygg, að fólki úti um land virðist, að þingið hafi lítið gert fyrir landbúnaðinn, hvað snertir hið árlega rekstrarfje, ef það sjer engin úrræði honum til viðreisnar, önnur en veðdeildarfyrirkomulagið eitt.

Það má vel vera, að eitthvað megi að nál. finna, og þá sjerstaklega till. nefndarinnar um sjóðina. En þetta er þó ekki að eins álit nefndarinnar, heldur hefir því verið hreyft áður af ýmsum þingmönnum, og þá síðast af hv. 1. þm. Skagf. (M G.), að þessir sjóðir, sjerstaklega ræktunarsjóðurinn, sjeu stofnaðir í þessu skyni. Og nefndin vildi benda á, að ekki mundi óhyggilegt að nota nokkuð af þessum sjóðum. En hins vegar hefir hún tekið það fram, að líka þyrfti að útvega fje á ábyrgð ríkisins, og væri þá óefað heppilegt, að það fengist sem mest innanlands. Þótt ræktunarsjóðurinn sje að mestu leyti fastur nú, hlýtur talsvert fje að koma inn árlega, og því mætti óefað verja til þessarar stofnunar. Það yrði að vísu lítil fjárhæð. En nefndinni kemur það ekki á óvart; þess vegna hefir hún lagt til, að nauðsynlegt mundi að útvega meira fje, og þá er sú leiðin sjálfsögð, að vinna að því að fá lánsfje á ábyrgð ríkisins handa stofnuninni til að starfa með.

Skal jeg svo ekki ræða meira um málið, en vænti þess, eins og hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) mintist á, að hv. deild greiði atkvæði með tillögunni, og viðurkenni með því, að þetta sje nauðsynjamál, sem stjórninni beri að vinna fyrir í nánustu framtíð.