21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

89. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það er betra en ekki fyrir stjórnina, sem hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) tók fram fyrir nefndarinnar hönd, að ekki mundi að því fundið, þótt nokkru fje væri varið til að hrinda þessu í framkvæmd. Jeg fyrir mitt leyti býst ekki við, að hægt verði að komast af með lítið fje til þess. En þótt hv. frsm. (St. St.) kæmist svo að orði, að ekki mundi verða fundið að því, þótt varið yrði nokkru eða dálitlu fje til framkvæmdanna, og vildi ekki taka dýpra í árinni, þá treysti jeg svo frjálslyndi þingsins, að það muni ekki finna að því, þótt stjórnin verji því fje til að hrinda málinu fram, sem nauðsyn krefur. Jeg hefði álitið, að betur hefði átt við, að fjárveitingin hefði verið nefnd berum orðum í tillögunni sjálfri, en fyrst þess er ekki kostur, verður svo að vera, og treysti jeg því fyrir hönd stjórnarinnar, að henni sje óhætt að byggja á því sem hv. þm (St. St.) mælti um fjárveitinguna fyrir hönd nefndarinnar.