23.08.1919
Efri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

120. mál, eyðing refa

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi ekki margt um þessa þingsál. að segja. Jeg vil ekki segja, að jeg geti ekki greitt henni atkvæði, en hitt finst mjer, að andinn í henni sje óþarflega „sterkur“. Um fyrsta lið hennar, sem sje þann, að ætla mönnum sæmilega borgun fyrir grenjavinslu, er það eitt að segja, að það er ekki nema gott og blessað í sjálfu sjer. En þó munu allir þeir, sem kunnugir eru hugsunarhættinum innan sveita- og sýslustjórna, fara nærri um það, hvernig þeim „sæmilegheitum“ verði farið, því þar sem mest er um það hugsað að spara og aftur spara, eru ekki ýkjamiklar líkur til þess, að borgunin verði ákveðin svo rífleg, að nokkurri skyttu þætti slægur í því að sækjast eftir henni. Og sama er að segja um annan lið nál., en um þriðja liðinn, sem sje að verðlauna þá, sem skara fram úr og vinna vissa tölu — um það er skemst að segja, að það er nú einmitt það, sem þingið er nú að gera. Það er að verðlauna þá, sem lagt hafa atorku sína og efni fram til þess að halda uppi arðsamri atvinnugrein í landinu — verðlauna þá með því, að svifta þá þessari sömu atvinnu. Og þegar sjálft Alþingi telur þetta sæmileg verðlaun, þá má fara nærri um það, hvað sveitarstjórnir muni telja sæmilegt.

Annars sýnist mjer, sem skoða eigi þessa þingsál. í sambandi við annað refafár þessa þings, og þá virðist mjer liggja í augum uppi, að ef Nd.-lögin um eyðing refa ná fram að ganga, þá er þessi þingsál. óþörf, en ef þau fá ekki framgang, þá er hún ónóg, og þess vegna get jeg ekki gefið henni nein meðmæli — og geri ekki.