15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

123. mál, landsreikningarnir 1916 og 1917

Jörundur Brynjólfsson:

Viðvíkjandi því, að greitt hafi verið meira en ávísað var, er það að segja, að við höfum yfir það farið og enga villu fundið, nema skekkju, sem nam 2 kr., á Alþingiskostnaðinum, og er það svo smávægilegt, að ekki er ástæða að gera mikið úr því. Enda er það nú upplýst.

Þá kem jeg að þessari margumræddu 21. athugasemd, um vegamálastjórareikningana. Úr því að takmörk eru sett á annað borð fyrir því, hve nær reikningar megi koma síðast, þá verða sýslunarmenn landsins að fullnægja því. Hjer munaði að eins um tvo daga. Það er lítið, en þó nóg til þess, að reikningum vegamálastjóra og landsreikningnum gat ekki borið saman. Það er sama, hvort það munar litlu eða miklu; afleiðingin verður sú sama, og þess vegna verður að átelja það, að reikningar komi of seint.

Það hefir verið talað um, að landsreikningarnir ættu að eins að ná yfir tekjur og gjöld. En því þá ekki að sleppa allri sundurliðun? Til hvers er hún, ef ekki til þess, að það komi fram, hvernig fjenu hefir verið varið? Þegar það kemur ekki fram og ekkert er gert til þess, að slíkt sjáist, þá er eins gott að láta alla sundurliðun niður falla. Það er sagt, að þessi nákvæma sundurliðun geti ekki átt sjer stað, því til þess verði að bíða eftir smáreikningum. En hvernig er hægt að gera landsreikningana úr garði, ef vantar það, sem landsreikningarnir einmitt byggjast á, ef undirstöðuna vantar, en það eru reikningarnir frá stofnunum og starfsmönnum landsins. Það er engin von til þess, að landsreikningnum og þeim reikningum beri saman, sem koma eftir að landsreikningnum er lokað, og þá verður landsreikningurinn ekki rjettur, og það er einmitt það, sem við áteljum.

Þá er talað um ósamræmi milli þessarar kröfu og þeirrar, að landsreikningarnir komi snemma. Þetta þykir mjer einkennilegt. Ef verkinu á að vera lokið fyrir ákveðinn tíma, er þá nokkurt ósamræmi í því, að heimtað sje, að það sje unnið fljótt og vel? Hlýtur það endilega að verða illa af hendi leyst, þó það sje ekki dregið fram úr öllu hófi?

Menn skilji ekki orð mín svo, að jeg sje að finna að þeim, sem starfa að þessu í stjórnarráðinu, og síst hv. 3. skrifstofustjóra, því jeg veit, að þar hefir komist mikið betra skipulag á, síðan hann tók við embættinu. Jeg er að finna að fyrirkomulagi, ekki mönnum. Jeg er að mælast til að þetta ósamræmi, sem hjer um ræðir, komi ekki fyrir framvegis, og býst við að þeir menn, sem nú starfa að samningi landsreikninganna, sjái um, að þeir verði gerðir vel úr garði.

Jeg þarf ekki að eyða frekari orðum að þessu. Það má segja, að þetta geri lítið til í þetta sinn, en svo má alt afsaka. Jeg kynni ver við, að þessu væri altaf þannig háttað, því þá gerir það óneitanlega til; það er fyrirkomulag, sem ekki er við unandi.