30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

138. mál, Þingvellir

Einar Arnórsson:

Jeg býst ekki við, að þörf sje að mæla mikið með þessari till.; hún er svo sjálfsögð, og þetta hefði átt að gera fyrir löngu. Eins og allir geta sjeð, sem til Þingvalla fara, er meðferð staðarins algerlega óviðurkvæmileg. Þarf ekki annað en benda á það, sem fyrst ber fyrir augu manna, og það er, að vegurinn skuli liggja um Almannagjá, þar sem hann nú er. Það er blátt áfram skrælingjaháttur. Þessi staður átti að liggja óhreyfður, annað var ósæmandi. En við þessu verður ekki gert, úr því sem komið er. Jeg býst ekki við, að hægt sje að taka veginn burtu, án þess að vegsummerki sjáist.

Þá má nefna til annað, sem óprýðir staðinn að miklum mun, og það eru timburkofar, sem hrúgað hefir verið upp. Sumir voru gerðir 1907, en aðrir komnir áður og sumir síðan. Nú eru einstakir menn að reisa þarna sumarbústaði, og hljóta þeir að hafa fengið leyfi til þess. En alt þetta er óvirðing og óprýði á staðnum. Það hljóta allir að sjá.

Það er orðin venja, að fólk sækir mjög til Þingvalla sjer til skemtunar, og ganga þar af miklar sögur og margvíslegar. Þar á margt að gerast, sem ekki getur talist í fullu samræmi við fornhelgi staðarins. Það er einnig undan því kvartað, að jörðin, og þá sjerstaklega skógarkjarrið, spillist af völdum þessara glaðværu gesta.

Annars þarf þetta mál ekki mikinn rökstuðning. Jeg geri ráð fyrir, að flestum sje fullljós nauðsyn þess. Þess vegna þótti mjer leiðinlegt til þess að vita að hv. 2. þm. Rang. (E. J.) lagðist á móti því af fjárhagsástæðum. Mjer þykir þetta því undarlegra, þar sem hann er Sunnlendingur og hefir eflaust sjeð Þingvelli með eigin augum og þá um leið ástand staðarins. Jeg býst við því, að augu hans hafi ekki verið svo haldin, að hann hafi ekki sjeð öll vegsummerki. Vitanlega hefir þetta útgjöld í för með sjer, en við höfum líka skyldum að gegna, og það skyldum, sem ekki verða metnar til fjár. Þær eru helgari en fje. Við þennan stað eru bundnar flestar söguminningar okkar að fornu og fram eftir öldum. Þar hafa gerst mestu gleði og raunatíðindi Íslands. Það er því þjóðarhneisa að láta svo til ganga, sem gengið hefir, og gera ekki ráðstafanir til að vernda staðinn gegn skemdum og níðslu. Það, sem vanrækt hefir verið, verður aldrei bætt að fullu. Staðnum hefir verið svo lítill sómi sýndur, menn hafa gefið honum svo lítinn gaum, að margt er nú fallið í djúp gleymskunnar honum viðvíkjandi. Jeg get nefnt eitt dæmi, og það er Lögberg. Það veit enginn með óyggjandi vissu, svo ekki verði um deilt, hvar það hefir verið. Jeg fyrir mitt leyti þykist viss um það, en um þetta atriði er ágreiningur, og engin fullnaðarniðurstaða fengin. Það getur verið, að svo fari um fleiri örnefni, sem merk eru, bæði þarna og á öðrum stöðum. Þjóð, sem vill halda áfram að vera sjerstök þjóð, getur ekki látið sjer nægja að framleiða smjör, kjöt og fisk. Það er vitanlega nauðsynlegt, en hitt er ekki síður nauðsynlegt, að vita deili á fortíð sinni, því á henni verður framtíðin að byggjast. Þjóðin getur því að eins gengið stig af stigi, að hún haldi við þeim kostum, sem hún á liðnum öldum hefir aflað sjer, og bæti úr göllunum. En ef svo á að verða, þá má ekki feðranna frægð falla í gleymsku og dá.

Þetta hefir vitanlega kostnað í för með sjer, en hann er ekki svo mikill, að hægt sje að horfa í hann. Þetta verður ekki gert á einu ári, og dreifist þá kostnaðurinn. En það verður að halda málinu vakandi og verja staðinn fyrir frekari skemdum en orðið er.

Það hefir verið um það rætt, hvort eftirlitsmaðurinn eigi að hafa lögregluvald eða ekki. Jeg hefi ekki athugað málið sem skyldi, en það er ýmislegt, sem mælir með því, fljótt á litið. Það er sjálfsagt, að hann hafi vald til að verja mönnum umferð og óhæfilegt háttalag á afmörkuðum svæðum. En svæðið yrði víðáttumikið, og væri erfitt að framkvæma það eftirlit. Það er altaf til nóg af heimskum og óhlýðnum lýð sem gerir sjer að leik að brjóta settar reglur. En ef maðurinn hefði ekki lögregluvald, þá væri hætta á, að margur slyppi, sem ekki ætti að sleppa, þegar ekki væri hægt að sekta þegar í stað. En þó segi jeg ekki nema hitt dygði.

Jeg vona, að þessi till. verði samþykt og menn láti ekki undir höfuð leggjast að ljá þessu máli fylgi sitt, þó að það hafi lítils háttar útgjöld í för með sjer. Menn fara ekki að gera þjóðinni þá vansæmd að láta þetta mál dragast lengur.