30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (2560)

138. mál, Þingvellir

Pjetur Ottesen:

Jeg býst við, að ummæli mín um þetta mál verði tekin sem mótmæli gegn því, og að jeg sýni þar með óþjóðrækni mína, en þó get jeg ekki stilt mig um að fara nokkrum orðum um 2 atriði. Jeg sje ekki, að þau snerti svo mjög verndun staðarins, og mæli jeg því ekki á móti tillögunni, þó jeg andmæli þeim. Það er sem sje farið fram á, að alt Þingvallaland verði afgirt og þær jarðir, sem eru innan þess svæðis, verði lagðar í eyði. Það er drepið á það í greinargerðinni, að ábúð á jörðum þessum fari illa með landið, skógur eyðist og jörðin blási upp. Jeg er ekki neitt til hlítar kunnugur á þessum sviðum, en jeg sje ekki annað en hægt sje að setja reglur um meðferð skógarins, eins og víða er gert, og eitthvert eftirlit sje haft með, að þeim sje fylgt. Þá á ekki landinu að stafa hætta af búskap þarna. Þær jarðir, sem hjer er um að ræða, eru aðallega sauðfjárjarðir, og hefir fjárbeit ekki góð áhrif á skóginn. En þannig er ákaflega víða, og hefir þó ekki komið til tals að leggja þær jarðir í eyði. Það er vitanlegt, að mikil sauðbeit í skógunum að vetrarlagi stendur nokkuð í vegi fyrir vexti og framförum skógarins. En það er annað, sem hefir átt enn öflugri þátt í því, hvað skógargróðrinum hefir hrakað hjer á landi. Eyðing skógarkjarrsins mun vera miklu meira að kenna rangri aðferð við skógarhöggið. Nú er fengin fræðsla um það, hvernig höggva beri skóg, honum að skaðlausu, meira að segja honum til góðs, og ætti þá sú hætta að hverfa úr sögunni. Það er uppi sú stefna, að fjölga beri fremur en fækka býlum og er þá einkennilegt að heyra menn tala um að leggja búsældarjarðir í eyði. Við verðum að gera alt til þess að framleiða sem mest, en láta ekki loftkastalamenn og ímyndaðan þjóðarrembing hlaupa í gönur með menn til þess, sem miðar að því, að minka framleiðsluna að óþörfu. Þarna mun nú að vísu vera færra fje en áður var fyrir löngu síðan, en það þarf engan veginn að stafa af því, að landinu fari nú aftur. Áður var eingöngu treyst á beitina, og fje látið falla ef hún brást. Þetta hefir stórbreyst á seinni tíð. Nú setja menn miklu gætilegar á vetur, beita ekki eins mikið og áður, fara betur með skepnur sínar, enda hafa miklu betri not af þeim en áður var. Jeg sje því ekki, að hættan sje svo mikil, þó ábúð fengi að haldast á þessum jörðum, og vil jeg andmæla því, að jarðir sjeu lagðar í eyði, sem jeg verð að telja að sje að nauðsynjalausu gert.

En það, sem aðallega skemmir landið á Þingvöllum og kemur óvirðingu á þennan fornhelga stað, eru kaupstaðarbúarnir, sem gera sjer nú mjög tíðkvæmt á Þingvöll. Það verður að hafa eftirlit með framferði þeirra þar, og vil jeg engan veginn mæla á móti því, að eitthvað sje gert til að vernda Þingvöll fyrir þessum aðkomulýð. Jeg á ekki við það, að meina neinum að koma og dvelja á þessum stað, heldur að koma í veg fyrir það, að þessi staður sje nokkurskonar afdrep fyrir menn, og að þeir, sem þar dvelja, sjeu eiginlega fyrir utan lög og rjett.

Þá eru kofarnir, sem eru stór lýti á staðnum. Stjórnin hefir ekki gengið á undan með góðu eftirdæmi þar, því hún ljet hrófla upp tveimur húsum þar á því merkilega ári 1907, og stendur annað enn skinið og skáldað, en grunnurinn af hinu, sem minnisvarði um, að þar hafi bygt verið. Svo er farið að reisa þarna sumarbústaði, og veit jeg, að einn hefir verið reistur þar nýlega í fallegri skógarbrekku. Jeg býst við, að sá maður hafi fengið eitthvert leyfi eða leyfisnefnu hjá presti, sem hlýtur að hafa leitað til stjórnarráðsins og fengið samþykki þess til þessa þrifnaðar.

Jeg mun greiða atkvæði með því, að þetta sje rannsakað, og legg sjerstaka áherslu á, að staðurinn sje verndaður fyrir skemdum og ágangi kaupstaðarbúa og óprýði og smekkleysi kofanna. En jeg sje enga ástæðu til að fara að níðast á búunum. Jeg held að sæmra sje að láta þau í friði.