30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

138. mál, Þingvellir

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. 2. þm. Rang. (E. J.) hafði á móti till. kostnaðarins vegna. Jeg vil benda honum á, að till. fer að eins fram á rannsókn. Þá er það 2. liðurinn, að ef jörð losnar úr ábúð á þessu svæði, þá skuli hún ekki bygð aftur nema með þeim skilyrðum, að landssjóður hljóti ekki kostnað af, ef ábúandi þarf að standa upp af jörðinni friðunarinnar vegna. Landssjóður tapar þarna að eins afgjaldinu, og nemur það ekki miklu. Landsmenn munu á engan hátt verða varir við þessi útgjöld; svo lítil eru þau. Þá talaði hv. þm. (E. J.) um, að leiðinlegt væri að taka af fje til brúargerða og verja því í þessu skyni. Jeg skil ekki, hvers vegna hv. þm. segir þetta. Það fje, sem ætlað er til brúargerða, er á engan hátt skert með þessari tillögu. Upphæðin, sem þarf til þessarar rannsóknar, er svo hverfandi lítil, að hún getur ekki haft nokkur áhrif á verklegar framkvæmdir. En skylda ber okkur til að gæta þessa fornhelga staðar. Það er sómi þjóðarinnar.

Jeg get verið hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þakklátur fyrir undirtektirnar. Nefndin hefir ekkert látið uppi um það hvaða vald þessi eftirlitsmaður ætti að hafa, og verður það að fara eftir því, sem heppilegast er álitið, þegar til þess kemur, að framkvæmd verði á því atriði. Þó get jeg verið háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) sammála um það, að sennilega væri hentast, að hann hefði lögregluvald. Mjer þykir vænt um þann áhuga, sem sá háttv. þm. (E. A.) hefir sýnt þessu máli, og er hann mjer alveg samdóma um nauðsyn þess.

Hv. þm. Borgf. (P. O.) talaði um jarðirnar, sem lagðar mundu í eyði vegna friðunarinnar. Hann virtist sjá eftir þeim jörðum og hjelt, að þær gætu haldist í ábúð, án þess að það skaðaði skóginn. En jeg held, að hann hafi gert of mikið úr þessu. Jeg þekki nokkuð þarna til og hefi það líka eftir kunnugum mönnum úr þessari sveit, að ekki verði langt þangað til jarðirnar leggjast í eyði af sjálfu sjer. Heyskapur er mjög lítill á þessum jörðum, og ef ætti að takmarka beitina, þá væri það sama sem að afnema búin. Það er að eins tímaspursmál, hve nær jarðirnar leggjast í eyði, en meðan þær eru í ábúð, hlýtur skógurinn að ganga meir og meir úr sjer.

Mjer sýnist málið horfa þannig við, að ekki sje nema tímaspursmál, hve nær landið eyðist, og verður orðið svo spilt, að ábúðin hverfur af sjálfsdáðum. Þegar svo er komið, verða niðjar okkar að taka við því böli, sem vanræksla okkar um þennan stað hefir valdið. Hv. þm. Borgf. (P. O.) drap á það, að víða væru skógar á landinu, sem líkt væru notaðir og þessi skógur á Þingvöllum, og ekki spilst við. Það tel jeg nú ekki líklegt. Hins vegar fyndist mjer ekki úr vegi, að við gerðum þessum fornhelga stað hærra undir höfði en öðrum. Það er óþarft að taka fram, hvers virði hann er þjóðinni.

Viðvíkjandi því, að ferðafólk valdi þarna skemdum og spilli landinu, þá skal jeg síst bera á móti, að svo muni vera. En til þess að hindra það í framtíðinni þarf að girða landið, eins og þörf krefur. Það er engin leið til þess önnur, því eftirlitsmaður getur einn út af fyrir sig ekki komið í veg fyrir slíkt. Að öðru leyti sýndist mjer, að okkur hv. þm. Borgf (P. O.) bæri í rauninni ekki svo mikið á milli. Hann tók þessari till. vel og vildi, að eitthvað yrði að gert. Að eins var honum sárt um, að þessar jarðir skyldu lagðar í eyði. En jeg get frætt hv. þm. á því, að sjálfir ábúendur jarðanna skilja þetta mjög vel og munu fúsir að standa upp frá jörðum sínum, þegar þess verður krafist. En auðvitað verður að þóknast þeim fyrir það.