30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

138. mál, Þingvellir

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla að eins að gera stutta athugasemd út af ræðu háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Mjer heyrðist á hv. þm., að það væri síður en svo, að hann hefði nokkuð á móti því að vera frsm. þessarar till., þar sem þetta væri sjer áhugamál. Og skal jeg ekki rengja hann um það. Hv. þm. (J. B.) gat þess og, að hann gerði ráð fyrir, að ef þessar jarðir losnuðu úr ábúð, yrðu þær ekki bygðar aftur. Enn fremur taldi hann það að eins vera afgjaldsmissi, ef þær væru lagðar í eyði. Þar get jeg ekki verið honum sammála. Þess er að gæta, og er það aðalatriðið, að þarna er um framleiðslu að ræða af öllum þessum jörðum, sem framfleytt er á allstórum búum, svo það er meira en afgjöldin ein, sem kemur til greina. Það er minstur hluti þess, sem tapast við eyðinguna. Hv. þm. (J. B.) taldi það einungis tímaspursmál, hve nær þessar jarðir legðust í eyði hvort sem væri. Þetta er bara fullyrðing hjá hv. 1. þm. Reykv. (J.B.), sem við engin rök hefir að styðjast. Búskap á þessum jörðum hefir alls ekki farið aftur hin síðustu árin, heldur þvert á móti hið gagnstæða.

En sje meðferð á skóglendi jarðanna í einhverju ábótavant að öðru leyti, ætti að vera hægt að ráða bót á því.

Eins og nú er kunnugt orðið, eykur það vöxt skógarins, að hann sje grisjaður.

Mjer er ekki kunnugt um, hvort hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir leitað álits skógfræðingsins um þetta mál, og hvort það er eftir hans tillögum gert að ráða til, að þessar jarðir sjeu lagðar í eyði; jeg hefi ekkert um það heyrt. Hv. þm. (J B.) talaði enn fremur um það, að ábúendur þessara jarða mundu fúsir á að yfirgefa þær, þegar þess væri krafist, en það mundu þeir því að eins gera, að þeim væri sjeð fyrir góðum ábýlisjörðum annarsstaðar, eða þá fyrir ákveðna borgun, eftir því sem þá semdist um, og gæti það kostað landssjóð töluvert. En í greinargerð fyrir frv. stendur ekkert um það frá þeim. Að eins hafa þeir skorað á stjórnina að bæta úr þeirri óreglu og þeim spellum, sem stafi af ferðafólki á þessum stað. Og með þeim formála, að einhverju fje sje varið til að ráða bót á þessu, vil jeg gjarnan greiða þessari till. atkvæði mitt, en ekki með það fyrir augum, að leggja jarðirnar í eyði.