30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2277 í B-deild Alþingistíðinda. (2564)

138. mál, Þingvellir

Sigurður Sigurðsson:

Jeg skal geta þess út af umræðum þessa máls, að búskapur á þessum býlum í Þingvallasveitinni er því að eins mögulegur, að skógurinn sje notaður mikið. Þar er ekki mótak neinstaðar, svo jarðirnar eru eldiviðarlausar ef ekki væri skógurinn. Engjar eru þar heldur ekki að ráði, svo heyskapur er mjög erfiður. Þess vegna verður fjeð að lifa að mestu leyti á skóginum. Eins og gefur að skilja af þessu, þá eru þetta engar stórjarðir. Þær eru allar heldur litlar og framfleyta að eins sauðfje. Vatnskot er hjáleiga frá Þingvöllum, var lengi í eyði, en er nú bygt fyrir nokkrum árum. Þetta kot er svo lítið og heyskapur enginn, að þar væri ekki lífvænlegt, ef bóndinn gæti ekki haft annað með. — Ábúendum á þessum jörðum er þetta mál kunnara en öðrum. Og jeg veit ekki betur en bæði hreppstjórinn í Hrauntúni og oddvitinn í Skógarkoti sjeu hlyntir þessari ráðabreytni eða breytingu, sem talað er um að gera, og telji sig fúsa á að standa upp frá jörðum sínum. Enda mun annar þeirra, bóndinn í Skógarkoti, þegar vera farinn að hugsa sjer fyrir býli annarsstaðar. Báðir þessir menn, er jeg nefndi, eru skynsamir og athugulir. Þeir sjá það, að svo framarlega sem á að vernda skóginn fyrir eyðileggingu, þá er eina leiðin til þess sú, að hætt verði fjárbúskap á þessum jörðum. — Hv. þm. Borgf. (P. O.) gat þess, að hann efaðist ekki um, að þessir bændur færu vel með skóginn, og er jeg honum sammála um það, að svo miklu leyti sem þeim er unt. En það er sprottið af misskilningi hv. þm. (P. O.) að halda því fram, að þarna megi reka sauðfjárbúskap án þess að nota skóginn til beitar og eldiviðar.

Jeg ætla ekki að tala um umgengni ferðafólks um þennan stað. Hjer er um fornhelgan stað að ræða. Og auk þess er, eins og kunnugt er, þarna einhver fallegasti bletturinn á þessu landi. Jeg hefi víða farið, en hvergi sjeð fjölbreyttari nje hrikalegri náttúrufegurð. Og þegar þetta hvortveggja fer saman, fornhelgi staðarins og fegurð, þá álít jeg það siðferðislega skyldu þjóðfjelagsins að vernda hann frá eyðileggingu.