11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (2577)

150. mál, stækkun á landhelgissvæðinu

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Mjer finst sjálf tillagan ekki gefa beint tilefni til þess, að stjórnin eigi að beita sjer fyrir því, að fá friðuð fiskimið fyrir utan landhelgislínuna, önnur en firði og flóa; og þótt nefnd sjeu í henni „helstu bátamið“, þá gæti það átt við mið inni í flóum, utan landhelgi þar. En hitt er satt, að jeg mintist á það sem möguleik, að takast mætti að fá friðaðar einstöku grynningar utan landhelgi, af því að mig minnir, að dæmi sjeu til slíks, t. d. um New Foundlands grynningarnar að einhverju leyti. Jeg tek það fram, að eigi er beinlínis ætlast til þess í till., að stjórnin leggi mikla áherslu á þetta, ef óvænlega horfði um það, en ekki sje jeg neitt á móti því að hreyfa slíkri ósk. Hitt er sjálfsagt, að líkurnar eru meiri um áheyrn vegna flóa og fjarða, þar sem fordæmi eru fleiri fyrir, og því meiri áhersla á það leggjandi.