11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2291 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

146. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Magnús Pjetursson):

Jeg vona, að hv. deildarmenn hafi lesið þær ástæður, sem eru prentaðar með þessari tillögu, svo jeg þurfi ekki að fara mikið frekar út í að sýna fram á rjettmæti till. en þar er gert. Þó kemst jeg ekki hjá að víkja dálítið nánar að sumum atriðum en þar er gert, áður en greidd verða atkvæði.

Eins og sjá má á ástæðunum fyrir till., þá er mjög alvarlegt ástand hjer á landi með útbreiðslu berklaveikinnar. Hún gerir hjer afarmikinn usla. Árlega deyja af hennar völdum hátt á annað hundrað manna. Og þar eru þó að eins taldir þeir, sem ábyggilegt er að hafi dáið úr þessari veiki, samkvæmt skýrslum lækna. Á þeim sjest enn fremur, að það er talsvert mismunandi, hvað veikin er mögnuð og útbreidd, eftir því hvar er á landinu. Minst verður veikinnar vart á Suðurlandsundirlendinu, frá Hornafirði og vestur að Eyrarbakka. Aftur á móti er hún einna mögnuðust í Húnavatnssýslu, Skagafjarðarsýslu, Eyjafjarðarsýslu, og svo í báðum Múlasýslunum og Vestmannaeyjum. Samkvæmt skýrslum lækna er veikin mestur vágestur í þessum hlutum landsins.

Jeg býst nú við, að það fari svo þegar almenningur talar um þessa veiki, og má ske sumir hv. þm. líka, að þá hugsi menn sjer oftast þá tegund veikinnar, sem kölluð er lungnatæring. En því fer fjarri, að það sje nóg að hugsa að eins um þá tegund því eftir því, sem nú er komið á daginn, eru ýmsar aðrar greinar veikinnar orðnar fult eins alvarlegt umhugsunarefni.

Það er nú alstaðar á landinu aragrúi af börnum, unglingum og fullorðnum, sem þjást af útvortisberklum, bæði í kirtlum, liðamótum, beinum og jafnvel í innýflum, og má segja, að það sje orðið alt of stórt safn, sem gefi ærið áhyggjuefni.

Fyrir nokkrum árum hófst hjer lofsamleg hreyfing í þá átt að verjast þessari veiki og vinna að lækningu hennar. Árangurinn af þessari hreyfingu var sá, að hjer var sett á stofn heilsuhælið. Þetta var stórt og mikilvægt spor, sem með þessu var stigið, og alveg samkvæmt stefnu manna í útlöndum í þessu efni þá, því að þá voru einmitt heilsuhælin talin svo að segja eina ráðið, eða að minsta kosti helsta, til að útrýma veikinni. Nú aftur á móti vita menn, eða eru miklu sannfærðari um, að þetta sje ekki einhlítt. Enda deila menn nú jafnvel um, hvað mikið gagn heilsuhælin geri til að útrýma veikinni. Þess vegna er nú vakin ný hreyfing í öðrum löndum um að stemma frekari stigu fyrir berklunum með ýmsum ráðum. Munu menn nú alment vera þeirrar skoðunar, að besta ráðið sje að reyna að verja börnin, því að þar fari oftast sú eiginlega smitun fram Menn telja, að með því væri stærsta sporið stigið í áttina til að hindra útbreiðslu veikinnar, ef hægt væri að vernda börnin. Það er því það hlutverk, sem fyrir okkur liggur, og meðfram er tilgangur þessarar tillögu, að reyna að frelsa börnin. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að víða hjer á landi eru börn alin upp innan um berklaveikt fólk, einkum á fátækum heimilum, án þess að nokkrar sjerstakrar varúðar eða varnarráðstafana sje gætt.

Yfirleitt má segja, að ótalmargt sje órannsakað, sem að þessu máli lýtur, því þó að skýrslur læknanna gefi til kynna tölu sjúklinga, þá gefa þær alls ekki fullar upplýsingar um útbreiðslu veikinnar nje um þau einstöku hreiður, sem veikin á sjer víðs vegar um landið, og hún vafalaust breiðist út frá.

Eitt er enn órannsakað í þessu sambandi. En það eru húsdýrin okkar, hve mikinn þátt þau eigi í útbreiðslu veikinnar En þar fer jeg fljótt yfir sögu. Þykist jeg vita, að hv. þm. sjeu því samþykkir, að það sje einnig tekið til athugunar með öðru, er víkur að þessu máli, en sje ekki ástæðu til að fjölyrða um sjerfræðileg atriði hjer í deildinni, þar sem gera má ráð fyrir, að hv. deildarmenn margir hverjir gætu ekki þar fylgst með.

Þá vildi jeg aftur frekar benda á, að aðrar þjóðir hafa nú hafist handa í þessu efni og vinna nú að þessu sama marki á nokkuð öðrum grundvelli en þeim, að koma upp heilsuhælum. Víða um lönd, og þá sjerstaklega á Norðurlöndum, hefir í þessu máli orðið mikil vakning í þá átt, að bindast samtökum, mynda með sjer fjelagsskap og hafa margvíslega samvinnu til að finna ráð til varnar gegn útbreiðslu veikinnar. Hafa verið settar upp ýmiskonar stöðvar. Líkt er hjer, þar sem er vísir sá til hjálparstöðvar fyrir berklaveika, sem sett hefir verið upp af hjúkrunarfjelaginu „Líkn“ og hv. neðri deild hefir nú nýlega samþykt að veita dálítinn styrk.

Hjer á landi hefir verið til eitt fjelag, sem er Heilsuhælisfjelagið. Það hefir komið upp heilsuhæli, sem því hefir reynst ofvaxið að halda uppi og ríkið því tekið að sjer. Þegar felagið náði markinu, fór eins og oft vill verða, að áhuginn dofnaði, og má nú heita, að fjelagið sje í andarslitrunum.

Á Norðurlöndum hafa verið stofnuð svipuð fjelög, sem einnig vinna í hina áttina, að gefa fólki leiðbeiningar um veikina og varna smitun og útbreiðslu veikinnar meðal manna. Er nú mjög mikil samvinna á Norðurlöndum í þessu efni, og fundir haldnir af fulltrúum frá ýmsum Norðurlöndum eða fjelögum í þeim löndum. Á þessu ári átti að halda, og hefir víst verið haldinn, fundur, mig minnir í Svíþjóð, um þessi efni. Einn af læknum okkar, sem staddur var í Svíþjóð, átti þar tal við ritara fjelagsins þar, í Stokkhólmi. Hafði hann gert ráð fyrir, að fulltrúar kæmu frá öllum Norðurlöndum, og hafði boðið bæði Norðmönnum, Dönum og Finnum. En er til Dana kom, töldu þeir sjálfsagt, að Íslendingum yrði boðið sjerstaklega að taka þátt í fundinum, þar sem landið væri nú orðið fullvalda ríki. Læknir þessi viðurkendi strax, að þetta hefði verið misskilningur hjá sjer, að hann bauð ekki Íslendingum; hann hefði ekki fylgst nógu vel með. En því miður getur þetta eða slíkt boð naumast komið okkur að haldi sem stendur, þar sem enginn viðbúnaður og eiginlega ekkert samskonar fjelag er til í þessu landi og þau, er áður er um getið. Þetta má því ekki svo til ganga, því að eitt af því, sem mjög ríður á, er fullkomin samvinna og samband allra Norðurlanda í þessu efni.

Jeg veit, að þegar hv. þm. hafa sjeð till., hefir sjálfsagt gripið þá dálítill óhugur, vegna þess að hjer er talað um milliþinganefnd. Þær eru sumar svo illa þokkaðar af mörgum, vegna reynslunnar undanfarið, að það má jafnvel ekki nefna milliþinganefnd. Menn eru orðnir svo tortrygnir um, að slíkar nefndir geti komið að gagni.

Það er vitanlega rjett, að menn hafa mikið fyrir sjer í því, að af slíkum nefndum leiðir talsverðan kostnað. En jeg held samt sem áður, að þessi nefnd myndi gera svo mikið gagn, að hún myndi áreiðanlega verða til sparnaðar, enda yrði altaf kostnaður við þetta mál. Því að einnig þeir, sem ekki vilja milliþinganefnd, vilja þó láta hefjast handa. En það myndi þýða það, að stjórnin yrði að fá sjer menn til hjálpar. Kæmi það þá í sama stað niður að kostnaði til, en yrði að öllu leyti óstöðugra og reikulla en ef nefndin væri skipuð strax.

Þótt áður hafi verið talað um, að milliþinganefndir hafi reynst dýrar, þá býst jeg ekki við, að menn láti það fjárspursmál hafa áhrif á atkvæði sín. Það er enginn vafi á, að hve lítið sem nefndin afrekar, þá getur ekki hjá því farið, að gagn verði að.

Athugum, hvað berklaveikin kostar landið árlega. Er þá í fyrsta lagi manndauðinn, hve margir deyja af völdum veikinnar. Í öðru lagi er vinnutapið, sem orsakast bæði af því, hve margir menn sem annars eru vinnufærir, eyða löngum tíma til að ná aftur heilsunni, og svo af hinu, að sumir þessara manna verða aldrei aftur fullvinnufærir, þótt það heiti svo, að þeir lifi af veikina. Og svo er síðast en ekki síst beinn kostnaður við það, er menn þurfa að leita sjer læknishjálpar. Þessi kostnaður allur nemur ógrynni fjár á ári hverju hjer á landi. Þess vegna er jeg sannfærður um, að hve lítið sem til varna er gert, getur það aldrei orðið annað en stórsparnaður.

Og enn vil jeg benda á, að það getur aldrei álitist annað en menningarmerki, ef vjer nú líka, er vjer sjáum aðrar þjóðir hefjast handa, látum mál þetta til vor taka, en hugsum ekki sem svo, að þetta geti draslað áfram eins og verið hefir.

Þá munu menn nú spyrja, hvað sjerstaklega verði starfssvið og verkefni þessarar nefndar. Jeg býst nú ekki við, að það kæmi hv. þingdeildarmönnum að notum, þótt jeg færi að lýsa því út í æsar, því að það yrði of sjerfræðilegt.

En jeg geri ráð fyrir, að hið fyrsta, sem nefndin gerði, yrði að fara utan, til þess að athuga alt, sem að þessu máli lýtur, kynnast þeim mönnum, sem þar eru í fararbroddi, og sjá, hvaða leiðir hentugast sje að fara. Vinna síðan úr þeim upplýsingum, sem þeir fengju, til þess að komast í samræmi og samvinnu við Norðurlandaþjóðirnar í þessu efni.

Þá eru og ýms atriði í löggjöfinni, sem þarf að athuga og áreiðanlega að lagfæra, því að þau eru í ýmsu mjög á eftir tímanum. Ekki síst þarf að gera mikið til að sjá um, að fátæk heimili, þar sem börn eru og berklaveikissjúklingar, geti komið börnunum í burtu að kostnaðarlausu af hættustöðunum. Jeg á við að veita þannig styrk, að ekki verði talinn sveitarstyrkur, svo að foreldrarnir vilji láta börnin burtu. Jeg veit, að margir foreldrar vilja heldur leggja börn sín í hættu en að koma þeim fyrir annarsstaðar sem sveitarómögum.

Þá er að láta rannsaka sem nákvæmlegast útbreiðslu veikinnar og háttalag, og reyna að uppgötva þá staði, sem eru hreiður veikinnar, þar sem smitun dreifist ár eftir ár út um sveitirnar, og gera ráðstafanir til þess, að þessi hreiður sjeu hreinsuð.

Þá á takmarkið að vera, ef hægt væri, að endurreisa heilsuhælisfjelagið gamla, en ekki í sama formi og áður, heldur sem berklavarnafjelag, til að stemma stigu fyrir útbreiðslu veikinnar. Og svo framarlega sem slíkur fjelagsskapur ætti að koma að notum, yrði hann, líkt og samskonar fjelagsskapur í útlöndum, að hafa læknisfróðan mann sem framkvæmdarstjóra fyrir alt landið, sem ætíð gæti haft alla þræðina í hendi sjer.

Það eru náttúrlega fjölmörg atriði um þetta efni, sem enn er hægt að taka fram. Það væri efni í fyrirlestur, heilan fund, ef ræða ætti það út í æsar. En jeg geri ráð fyrir, að þetta sje nóg til þess að benda hv. deildarmönnum á nauðsyn þess að hefjast handa, svo að till. þessi komist þegjandi og hljóðalaust gegnum hv Alþingi. Það væri bestur vottur um skilning Alþingis á málinu, ef till þessi sætti engum mótmælum.