09.07.1919
Efri deild: 5. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

38. mál, ríkisborgararéttur

Forsætisráðherra (J. M.):

Þetta frv. er afleiðing sambandssamningsins, og eru aðalákvæði þess í samræmi við það, sem áður hefir staðið um þetta efni í íslenskum og dönskum lögum, og annars yfirleitt gildir víðast hvar í löndum.

Það, sem er sjerstakt við þetta frv., er ákvæðið um það, hverjir skuli teljast íslenskir og hverjir danskir ríkisborgarar nú, eða frá því að sambandslögin gengu í gildi, 1. des. f. á. Það hefði verið ekki óeðlilegt, að ákvæði um þetta hefði verið sett í sambandssamninginn sjálfan, en það var nú ekki gert og má því segja, að frv. sje í rauninni viðbót við þann samning. enda er það svo úr garði gert, komið frá ráðgjafar- eða sambandsnefndinni, sem svo er kölluð, og má því, að nokkru leyti teljast viðbótarsamningur.

Jeg skil ekki, að frv. geti valdið nokkurri óánægju. Þjóðernið er lagt til grundvallar, svo Íslendingar verða íslenskir og Danir danskir ríkisborgarar, þó svo, að Danir sem hjer voru búsettir fyrir 1. des. f. á., geta fengið íslenskan ríkisborgararjett.

Vona jeg, að Alþingi geti fallist á frv. og þyki það eðlilegt í alla staði.

Jeg legg til, að frv. verði vísað til hv. stjórnarskrárnefndar, og mun gefa henni allar þær upplýsingar, sem hún kann að óska og jeg get gefið um málið.