17.09.1919
Efri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

146. mál, varnir gegn berklaveiki

Halldór Steinsson:

Eins og kunnugt er, hefir berklaveikin farið mjög í vöxt síðustu árin hjer á landi, þrátt fyrir tilraunir heilbrigðisstjórnar og lækna til að koma í veg fyrir hana.

Mönnum telst svo til, að 7. til 8. hver maður á landinu deyi úr berklaveiki. Það eru alvarlegar tölur, og eitthvert hið mesta áhyggjuefni, ekki eingöngu læknum, heldur og öllum þeim mönnum, sem hugsa um þroska og velferð þjóðarinnar.

Menn hafa athugað, hver ráð væru heppilegust til að stemma stigu fyrir þessum vágesti, og hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hjer, sem annarsstaðar, væru sjúkrahæli ekki nægileg. Hjer á landi höfum við heldur ekki efni á að byggja svo stór og mörg hæli, sem þörf er á, svo að allir, sem þyrftu, gætu komist að. Eins og nú er ástatt, kemst ekki helmingur að, en þó nóg húsrúm væri, mundu margir ekki sækja um inntöku vegna fjárskorts, og auk þess eru flestir, sem hafa veikina á byrjunarstiginu, svo lítið þjáðir, að þeir vilja ekki fara á hæli og þannig sleppa atvinnuvegi sínum. Samt sem áður gera hælin ómetanlegt gagn, með því að taka sjúklinga, sem annars mundu verða hættulegir sambýlismönnum sínum og yfirleitt breiða sjúkdóminn út.

Berklahælin eru nokkurskonar uppeldisstofnanir, þar sem sjúklingunum er kent að fara sem best með sjálfa sig og að forðast að sýkja aðra.

Nú má eigi lengur við svo búið standa; það verður að stemma stigu fyrir þessari veiki, eftir því sem auðið er.

Á læknafundinum, sem haldinn var í sumar, var skorað á þingið að hlutast til um, að skipuð yrði milliþinganefnd, þar sem ættu sæti þrír læknar, til þess að rannsaka, hvaða leið væri best til að hefta þennan sjúkdóm.

Vona jeg, að allir hv. deildarmenn skilji, hvílíkt stórmál hjer er um að ræða. Og hver sem árangurinn verður af þessari viðleitni, hefir hv. þing gert skyldu sína, ef það fellst á að styðja þetta mál.

Jeg vona því, að þessi tillaga mæti sem bestum undirtektum og verði samþykt í einu hljóði.