20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

164. mál, laun hreppstjóra

Þórarinn Jónsson:

Jeg gat þess við 2. umr. launamálsins hjer í deildinni, að vel gæti komið til mála, að hreppstjórar gerðu kröfu til launabótar, því eins og launafrv. var þá, gátu þeir gert það. En svo var því breytt þannig, að ákvæðið um launauppbót náði að eins til þeirra, sem frv. getur um. Og launamálanefnd Ed. hefir ekki bætt hreppstjórum inn í frv., en stjórnin getur auðvitað hæglega komið þeim inn í það við 3. umr. En yfirleitt virðist svo, sem þetta hafi ekki verið stjórninni sjerlegt áhugamál.

Jeg hefi verið í æðimörg ár hreppstjóri og oddviti í minni sveit, og fyrir þetta hvorttveggja hefi jeg haft á ári 90–140 krónur. Ef kaupa hefði átt mann til sama starfa, hefði enginn fengist fyrir minna en 500 krónur á ári. Það má ef til vill segja, að þetta sje þegnskyldustarf, sem aldrei verði launað eins og vert er, og er nokkuð hæft í því. Að minsta kosti verð jeg að líta svo á um skattanefndir og sveitarstjórnir, að þær geti ekki ætlast til miklu meiri launa en þær hafa. Aftur á móti held jeg, að borgun fyrir sáttasemjarastörf sje hvergi auðvirðilegri en hjer.

Jeg álít rjett að taka þessa till. að einhverju leyti til greina. En jeg mun ekki greiða henni atkvæði, af því jeg veit, að stjórnin getur komið að uppbót nú í fjárlögunum, ef hún vill, og vil láta hana alveg einráða um, hvort hún álítur hreppstjórana maklega þeirrar uppbótar eða ekki.