20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

164. mál, laun hreppstjóra

Hákon Kristófersson:

Mjer er alls ekki kunnugt um, að nein óánægja hafi fram komið frá hreppstjóranna hálfu út af laununum, og því undarlegra finst mjer að svo mjög skuli bóla á henni hjer í þinginu. En jeg er alveg á sama máli og aðrir hv. þm., sem talað hafa, um það, að hafi krónan fallið í verði hjá öðrum, þá hafi hún eins gert það hjá hreppstjórunum, og eigi þeir því að fá dýrtíðaruppbót, en ekki launabætur.

Hitt vil jeg taka fram, að laun ýmsra annara voru hækkuð í fyrra, og hefir þó stjórnin lagt til, að þau yrðu aftur hækkuð nú. Svo það er í sjálfu sjer engin afsökun fyrir hana, þó launalög hreppstjóra sjeu ekki eldri en frá 1917. Þetta segi jeg ekki af því, að mjer þyki launin of lág.

Hv. flm. (S. St.) benti á það rjettilega, að ýmsir aðrir minni háttar starfsmenn væru illa launaðir og hefðu ekki verið teknir upp í launalögin. Þetta er alveg rjett. En hins vegar get jeg tekið undir með hæstv. forsætisráðherra (J. M.) um það, að menn ættu síst að vera að telja það eftir sjer, þótt þeir ynnu fyrir lítið í þeim málum, sem sveitarfjelög varða. Þó að jeg viðurkenni því, að það sje eðlilegt, að þessi till. sje fram komin, mun jeg þó greiða atkvæði á móti henni, og get sagt fyrir mitt leyti, að þótt málið sje mjer persónulega skylt, er það þó mín skoðun, að launin megi standa óhögguð.