09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2325 í B-deild Alþingistíðinda. (2624)

143. mál, fræðslumál

Pjetur Jónsson:

Jeg ætla ekki að ræða mikið um skólamál. Að eins vildi jeg þakka hv. mentamálanefnd fyrir till. þessa, sjerstaklega 1. lið hennar.

Hefir sú hugsun vakað fyrir mjer og fleirum, að betra skipulag þurfi að komast á alþýðuskólamálin en verið hefir, sjerstaklega um afstöðu skólanna til landssjóðs.

Þar hefir alt verið sitt á hvað; skólarnir eru ýmist landsskólar, eða skólar stofnaðir af einstökum mönnum eða fjelögum, en styrktir af landsfje. Hjeraðsskólar hafa einnig verið stofnaðir, og hefir litið svo út í fyrstu, sem hjeruðin hafi ætlað að halda þeim uppi, en þegar til kemur, hefir rekstur þeirra nærri því alveg lent á landssjóði.

Þetta fyrirkomulag er því mjög á reiki, og auðsætt er, að ekki er það rjett, að landið kosti þá skóla að mestu eða öllu, sem það hefir engin umráð yfir. Þetta tel jeg víst að vakað hafi fyrir hv. nefnd.

Hins vildi jeg spyrja hv. nefnd, hvort henni hafi ekki fundist vert að minnast á kvennaskólana og taka þá upp í till. þessa.

Í 2. lið I. aðalliðs till. eru taldir upp kennaraskólinn, gagnfræðaskólar, búnaðarskólar og alþýðuskólar. Nú geri jeg ráð fyrir, að kvennaskólar verði ekki heimfærðir undir neitt af þessu. Þeirra hefði því átt jafnframt að minnast sjerstaklega.

Kvennaskólar eru aðallega tveir hjer á landi; er annar hjer í Reykjavík og er „prívat“-skóli, en hinn á Blönduósi og er hjeraðsskóli, en báðir kostaðir að mestu af landsfje. Þá er líka einn enn, sem ekki er reyndar til nema á pappírnum. Það er húsmæðraskólinn á Norðurlandi.

Þessa skóla verður einnig að hafa í huga í því skólakerfi, sem tilvonandi nefnd á að íhuga og gera tillögur um.

Þá langaði mig til að minnast á skólahugmynd, sem menn hafa borið fyrir brjóstinu í Þingeyjarsýslu nú um undanfarin ár. Var jeg beðinn um að flytja það mál hjer á þingi, en hefi ekki fengið tækifæri til þess enn. Hjer hefir líka legið frammi erindi um styrk úr landssjóði til að koma á stofn skóla þessum, sem á að verða alþýðuskóli. Vil jeg leyfa mjer að lesa upp kafla úr umsókn þessari og greinargerð fyrir skólahugmyndinni.

Það er á þessa leið:

„Stofnun hins fyrirhugaða alþýðuskóla í Þingeyjarsýslu er bygð á þeirri grundvallarhugsun, að alþýðumenn geti notið góðra mentastofnana í sveitum, er efli íslenska þjóðmenningu, hamli á móti fólksstraumnum til kaupstaðanna, en hlynni að hollum innlendum sveitarlífsáhrifum.“

Þetta er þá aðal-„prógram“ skólans. Enn fremur segir svo í erindi þessu:

„Alþýðuskólinn þarf aðsetur á góðri bújörð, og skólaheimilið að sníðast eftir fyrirmyndar sveitarheimilum. Hann á að styðjast við bú, sem rekið er af búfróðum manni, annaðhvort á ábyrgð skólastjóra, eða fyrir eigin teikning, með sjerstökum skilyrðum við skólans hæfi.“

Þetta er grundvallarhugmyndin. Skólinn á hvorki að vera bænda- eða búnaðarskóli í eiginlegum skilningi, en miðaður sem mest við almennar andlegar þarfir sveitamanna, sem skólann munu sækja.

Hefir aðallega verið barist fyrir þessari hugmynd af ungmennafjelögunum, en sveitirnar og hjeraðið hafa stutt hugmyndina. Hugsunin er sú, að þetta yrði með tímanum landsskóli, á borð við Eiðaskólann. En jafnframt er búist við því, að hjeraðið yrði að leggja nokkuð til, sjerstaklega um stofnkostnaðinn.

Áætlunin er því sú, að hjeraðið leggi til 1/3 stofnkostnaðar, og eru þegar gerðar nokkrar ráðstafanir til þess, svo að ekki mun á því standa, þegar til kemur. Síðan sje skólanum haldið uppi af hjeraðinu, fyrstu árin með styrk úr landssjóði, er nemi 2/3 rekstrarkostnaðar, en svo taki landssjóður rekstur skólans að fullu.

Þessu vildi jeg að eins skýra frá, þar sem tækifæri gafst, og vona jeg því, að þessi skólahugmynd verði tekin til greina, engu síður en hugmyndin um skólann hjer á Suðurlandi, sem sjálfsagt fer í svipaða átt.

Jeg hefi svo ekki fleira um þetta mál að segja, en vil að eins vona, að hæstv. stjórn taki til greina þetta, sem jeg nú hefi sagt.