17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (2637)

163. mál, rannsókn skattamála

Magnús Pjetursson:

Jeg bjóst ekki við, að farið yrði að ræða um framtíðarstefnur í skattamálum í sambandi við till., eins og frsm. (Þorst. J.) gerði. Eins og hann veit sjálfur, talaði hann þar að eins í sínu nafni, en ekki nefndarinnar.

Það má engan furða, þó jeg hafi gerst meðflm. þessarar till., þar sem jeg í nærfelt öllum mínum ræðum sem frsm. fjárveitinganefndar hefi haldið því fram, að þetta þyrfti og ætti að gerast. Hefðu þær ræður sennilega átt að vera nægileg hvöt fyrir stjórnina, en það, sem mjer þó fanst rjettlæta, að till. kæmi fram, var það, að rjettara væri að heimila stjórninni fje til afnota í þessu skyni, svo hún kynokaði sjer ekki við að nota nauðsynlega aðstoð í jafnyfirgripsmiklu máli. En jeg álít, enga þörf á að fara að senda mann út. Og jeg held engum hafi dottið milliþinganefnd í hug, heldur að stjórnin þyrfti aðstoð sjerfræðinga og annara hæfra manna. Svo skal jeg geta þess, að jeg er alveg sammála fjármálaráðh. (S. E.) um, að þetta er illframkvæmanlegt fyrir næsta þing, og ef þing kemur aftur saman í vetur eða vor, þá liggur að minsta kosti í augum uppi, að ekki er hægt að gera þetta fyrir þann tíma.