25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Bjarni Jónsson:

Það er ekkert nýtt, ekki nein mikilsverð uppgötvun, sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir gert, að sjá Sogið, eins og helst er á honum að heyra. Á þingi 1917 bar jeg fram frv. þess efnis, að landið keypti vatnsafl. Jeg áleit þá, eins og aðrir, að landið þyrfti að kaupa það. Jeg man ekki, hvort jeg tók það fram í frv. eða í umræðunum, að jeg áliti Sogið best til þess fallið. Það væri ódýrast og því best í sveit komið. Svo gleymdi hv., þm. (J. B.) að geta þess, að meiri hluti fossanefndarinnar hefir sent stjórninni frv. þess efnis að rannsaka, hvað kostaði að virkja Sogið, og má því nærri geta, að hann hefir sjeð Sogið og athugað, hvernig það væri til slíks fallið.

Frá því að jeg hafði fyrst ástæðu til að láta í ljós skoðun mína á þessu máli, hefi jeg haldið því fram, að best væri, að landið virkjaði sjálft Sogið. Þetta hefir alt frá upphafi, frá því fyrst var farið að hreyfa þessum fossamálum, verið mín skoðun, og jeg hefi ekkert farið í launkofa með hana. Jeg hafði sem sje sjeð kosti Sogsins fyrir löngu, eins og reyndar allir hafa sjeð þá. Það er þess vegna dálítið skrítið, þegar hv. þm. (J. B.) heldur hjer langa ræðu og lýsir þessum kostum með miklum fjálgleik, eins og enginn hefði fyr orðið var við það. Það skaðar að vísu aldrei að brýna þetta fyrir mönnum, en þá er hægt að gera það með örfáum orðum. Það er ótvírætt nálægðin, umhverfið, sem skipa Sogsfossunum fremst. Það hefir minna að segja, hvort það eru beitarlönd og búskapar eða ekki. Iðjuverið þarf ekki að vera nálægt orkuverinu og mundi ekki verða. Það yrði hjer í Reykjavík aðallega og við hafnir. Búskapurinn verður þess vegna að eins kostur, þegar litið er á það, að þeir, sem vinna að því að koma orkuverinu upp, geta fengið þar ódýrt smjör og mjólk og aðrar búsafurðir. En þó að það sje gott, þá getur slíkt aldrei orðið neinn aðalkostur.

Um þetta þarf ekki að deila. Það var auk þessa eitt, sem hv. flm. (J. B.) talaði um og gaf upplýsingar viðvíkjandi, hversu mikið mundi kosta að taka eignarnámi vatnsaflið í Soginu, og útbygging þess. Jeg sje nú af þessu, að hann mun ætla sjer að fá viðurkenningu þingsins með því á eignarrjetti ávatnsorku alment. Því að svo framarlega sem landið sjálft ætti vatnsorkuna, þá þyrfti ekkert eignarnám til, og ekki heldur, ef hún væri einskis eign. Það er ekki nema því að eins, að hún sje í höndum einstaklinga. Hv. 1. þm. Reykv. sagði í áætlun sinni, að kostnaður við að taka vatnsaflið í Soginu eignarnámi mundi svara nærri 50 þús. kr. Jeg skal ekkert um það segja, hversu rjett þetta er reiknað, og hvort það er miðað við meðalverð á hestaflinu. En hitt veit jeg, að vatnsaflið hefir hingað til oft verið selt ódýrt hjer á landi. Það hækkaði ekki í verði fyr en fjelagið „Sleipnir“ tók að kaupa Hvítá. Þeir sem að því stóðu, buðu betri borgun en menn höfðu gert áður, og áður lögðu menn sig betur í framkróka til að tæla þessar eignir út úr mönnum fyrir tiltölulega lítið verð. Þetta er nú í sjálfu sjer ekki svo mikilvægt. En jeg vildi benda á það, því til sönnunar, er jeg sagði áðan, að eignarrjettarspursmálið er í raun og veru aukaatriði, þegar um kostnaðinn er að ræða. Kostnaðurinn við að reisa orkuvirki þau, sem hjer er átt við, mundi verða alt að 10 milj. króna, og orkuveita til annara staða sennilega 5 milj. króna. Samtals yrði þá kostnaðurinn nálægt 15 milj. kr. Af þessu má sjá, að þó svo þyrfti að kaupa eignarrjettinn fyrir 50 þús. kr., þá er sú upphæð svo hverfandi lítil, saman borið við annan kostnað, að hún verður aldrei annað en aukaatriði, alveg frá sjeð því hvort rjetturinn er einstakra eign eða ekki. Hitt er aftur á móti meira um vert, að fá ótvíræðan umráðarjettinn, með tilliti til útlendinga, er kynnu að ásælast hann.

Nú er svo komið um flest vatnsföll hjer á landi, að það skiftir litlu máli fyrir þjóðarhag okkar Íslendinga, hvort komist verður að þeirri niðurstöðu, að vatnið sje eign einstakra manna eða ekki, því menn hafa verið svo bráðlátir, að allir eru búnir að selja, sem hafa getað.

Mjer þætti vænt um, ef hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) vildi gefa mjer upplýsingar um, hvort það væri ásetningur hans og hinna flutningsmannanna að fá með þessu viðurkenningu þingsins fyrir einstaklingsrjetti yfir vatni. Það stendur í fyrirsögn tillögunnar: „lögnám landinu til handa á umráðum og notarjetti vatnorku allrar í Sogi“. Þetta orðalag get jeg ekki felt mig við, samkvæmt því, er jeg áður hefi sagt. Jeg hefði ekki furðað mig á, þó staðið hefði um lögnám á landsnyt, áveiturjetti eða veiðirjetti, eða öðru, sem mönnum ótvírætt er gefinn rjettur yfir. En alt öðru máli er að gegna um vatnorku. Einmitt um hana stendur deilan milli meiri og minni hluta fossanefndarinnar, hvort heimilt sje að notfæra sjer hana eftir vild, eins og til dæmis veiðirjett eða annað, er jeg nefndi áðan. Jeg vil geta þess í þessu sambandi, að það er heimilað í einum lögum að nýta vatnsorku. Það er í námulögunum frá 1907. Samkvæmt þeim hefir námueigandi heimild til að nota vatnsaflið í þarfir rekstrar á námunni. Eftir því að dæma lítur út fyrir, að þá hafi ekki vatnsaflið verið álitið einstaklingseign. Mjer þætti fróðlegt að fá að vita hjá hv. flutningsmönnum, hvort þeir hafi orðað till. sína á þessa leið af ásettu ráði, til að skera úr um þetta vafaatriði. Sje það ekki meining þeirra, finst mjer orðalagið ónákvæmt; það mætti t. d. orða það svo, að landið „taki í sínar hendur“ o. s. frv.

Annars finst mjer óþarft að gefa neinar reglur um aðferðina í þessu skyni. Ef stjórnin eða landið ætlaði að hagnýta sjer vatnorkuna, mundi hún auðvitað gera það eins og lög standa til.