25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Benedikt Sveinsson:

Vjer flm. þessarar tillögu höfðum ekki búist við því, að hún mundi valda miklum þrætum hjer í þingdeildinni. Töldum vjer henni víst örugt fylgi hvorstveggja hluta fossanefndarinnar, þar sem vjer vissum, að formælandi meiri hlutans vill engu útlendu fjelagi fá í hendur nokkurt fallvatn hjer til stóriðju, og í annan stað hefir minni hlutinn talið alveg sjálfsagt, að landið sjálft tæki vatnorku Sogsins í eigin þjónustu. Það er og bein tillaga eins af nefndarmönnum, hr. Guðm. Eggerz.

Hv. fyrri þm. Reykv. (J. B.) tók fram helstu rök þess, hverja nauðsyn ber til, að landið tryggi sjer alla vatnorku í Soginu nú þegar, og vil jeg í fám orðum styðja og árjetta hans mál.

Allir viðurkenna, að landið þurfi á allmiklu rafmagni að halda til ýmissa nytja, og hvergi jafnmiklu í einum stað sem í nánd við Reykjavík. Hitt er og jafnkunnugt, að hjer í grend er ekkert það stórvatn, er fullnægi þörfum landsins, sem er nándarnærri jafnhentugt og hagfelt til nýtingar sem Sogið. Lega þess er hin ákjósanlegasta, eins og frsm. (J. B.) gat um, þar sem það liggur svo sem miðja vegu milli fjölbygðustu staða landsins, þar sem á aðra hönd er Reykjavík og Hafnarfjörður, ásamt mannmörgum og þjettbygðum bygðarlögum, en á hina bæirnir austanfjalls: Stokkseyri, Eyrarbakki og Þorlákshöfn og öll Árnessýsla, fjölmennasta og framfaravænlegasta hjerað landsins.

Auk þessarar hagkvæmu legu sinnar hefir Sogið annan höfuðkost til síns ágætis umfram öll önnur stórvötn landsins sem er sá, að það fellur úr Þingvallavatni, langstærsta vatnsgeymi, sem til er á þessu landi. Þessi mikli vatnsgeymir, sem náttúran leggur til ókeypis, jafnar vatsmegin Sogsins svo, að það má teljast hið sama vetur og sumar, og er langtum minna háð breytingum af vorleysingum, rigningum eða langvinnum þurkum, en nokkurt annað stórvatn landsins. Aftur er vatnsmegin jökulánna, t. d. Hvítár og Þjórsár mjög háð veðráttufari og árstíðum. Stundum flóa þær með jökulhlaupum og ofsavexti yfir alla bakka, stundum liggja þær niðri í grjóti, og kostar ógrynni fjár að jafna svo vatnsmegin þeirra, að við megi hlíta.

Af þessu er augljóst, að Sogið hefir þá tvo aðalkosti, sem ákjósanlegastir eru, umfram öll stórvötn önnur: hagkvæmasta legu og öruggast og jafnast vatnsmegin — Og hverjum skyldi Alþingi fremur vilja unna að njóta þessara kosta en þjóðinni sjálfri?

Það hefir verið ymprað á því, að óvíst væri, hvort landinu væri kleift að ráðast í það, að setja upp orkuver við Sogið. Giskað á, að það kynni að kosta um 10 miljónir, ef alt vatnsaflið, 60,000–70,000 hestöfl, væri tekið. En þótt bægðir væru á að ráðast í svo stórt fyrirtæki þegar í stað, þá mundu þó fáir örvænta svo um framtíðarhag þjóðarinnar að efast um, að henni yrði það fært síðar. Þess vegna er jafnnauðsynlegt, að landið tryggi sjer alla vatnorkuna, þótt hún yrði ekki öll notuð þegar í stað. Það er engin ástæða til að taka alt vatnsaflið í einu til notkunar, nema vissa sje fyrir því, að það svari vel kostnaði.

En hitt er brýn nauðsyn, að tryggja landinu alla vatnorku í Soginu nú þegar, og ekki eftir neinu að bíða. Ekkert fallvatn hefir verið svo eftirsótt sem það sem vonlegt er, — allir vita, að það er í „hers höndum“, — og að því leyti sem taka þarf lögnámi rjettindi landinu til handa, þá er alveg áreiðanlegt, að það verður miklu ódýrra nú en nokkru sinni áður.

Framkvæmd á því að tryggja landinu vatnorkuna í Soginu þolir enga bið, meðfram vegna raflýsingafyrirtækis Reykjavíkur, — enda er ekki eftir neinu betra að bíða. En svo sem kunnugt er, var sú vandræðaráðstöfun gerð í bæjarstjórn Reykjavíkur í fyrra, áður en sáust endalok ófriðarins, að reisa litla rafmagnsstöð við Elliðaár (eða Grafarvog), sem kosta mundi 2–3 miljónir króna, og hafa svo sem 1000 hesta afl. Í þetta var ráðist sem dýrtíðarráðstöfun, og utan bæjarstjórnar hefir það aldrei haft neitt fylgi. Nú, við „breyttar kringumstæður“, má heita, að hver einasti maður sje andvígur þessu fyrirtæki, og jafnvel í bæjarstjórn eru skoðanir manna óðum farnar að fráhverfast því.

Ekkert myndi því verða Reykvíkingum meiri gleðifrjett heldur en það, að landið trygði sjer Sogsfossana og bærinn gæti sem allra fyrst vænst þess að fá þaðan nægilegt rafafl, og þar með losað sig við að fleygja miljónum sínum í þessa afardýrkeyptu bráðabirgðavandræðastöð við Elliðaár eða Grafarvog, sem enginn veit enn, hvar tiltækilegast væri að hola niður.

Hv. þm. Dala. (B. J.) spyr oss flutningsmenn að því, hvort vjer viljum með tillögunni lýsa yfir ákveðnum skilningi vorum á deilu þeirri, sem orðið hefir í fossanefnd, um eignarrjett á vatni eða vatnorku, og hvort vjer jafnvel ætlum að láta hv. þingdeildarmenn „taka afstöðu“ og binda hendur sínar gegn meiri hluta fossanefndarinnar með fylgi sínu við tillöguna.

Þessari spurningu skal jeg svara alveg afdráttarlaust, þannig, að það er svo langt frá, að vjer ætluðum að láta menn binda hendur sínar um „eignarrjettar“-deiluna, að vjer vildum einmitt orða tillöguna svo, að þetta viðkvæma deiluefni þyrfti ekki að blandast í umræðurnar. Tillagan er einungis nauðsynleg varúðar ráðstöfun. Fyrir oss vakir ekkert annað en að fá það alveg trygt og örugt og tvímælalaust, að landið hafi full og óskoruð umráð yfir allri vatnorku í Soginu og landi meðfram því eftir þörfum sjer til handa — hver sem niðurstaða verður um deiluefni fossanefndarinnar: eignarrjett vatnorkunnar. Ef tillaga vor er ekki nógu vel orðuð að þessu leyti, þá er það á valdi nefndarinnar að umbæta slíkt. Vjer erum ánægðir, ef þessi yfirlýsti tilgangur vor með tillögunni nær tvímælalaust fram að ganga, en orðalag hennar að öðru leyti skiftir oss engu.

Annars þykir mjer hv þm. Dala. (B. J.) óþarflega viðkvæmur út af orðalagi tillögunnar. Hann sagði, að enginn gæti tekið þann hlut eignarnámi, sem hann ætti sjálfur. Þetta vitum vjer, og ekkert væri oss flutningsmönnum kærara en að landið ætti nú vatnorku alla í Soginu (og annarsstaðar) og þyrfti því engu verði að kaupa. En hitt er öllum kunnugt, að útlent auðfjelag hefir starfað að því um mörg ár að klófesta Sogið, og telst nú hafa náð leigusamningum á mestallri vatnorku þess. Auk þess hefir Reykjavík keypt þar nokkur vatnsrjettindi og aðstöðurjettindi á landi fyrir 30 þús. króna. (B. J.: Bærinn hefir þá keypt af þeim, sem ekki átti með að selja). Dómstólarnir einir munu skera úr því til hlítar, hvort hjer er um kaupfox að ræða. En þar sem svona er komið yfirráðum Sogsins í verki, þá getum vjer ekki fallist á, að það sje nein goðgá að gera gangskör að því, að fullar bætur sjeu á ráðnar, með þeim hætti, sem heimilað er í lögum, hvort sem farið er eftir þeim greinum fossalaganna, sem vjer höfum skírskotað til, eða öðrum lagastöfum.

Vjer óskum þess eins, að tillagan nái fram að ganga að efni til, þegar á þessu þingi. Nauðsyn þjóðarinnar krefst þess, að það bregðist ekki. Treystum vjer og þinginu að láta það ekki bregðast.