25.07.1919
Neðri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2663)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Bjarni Jónsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir borið mig þeim brigslum, að jeg hafi látið undan síga í þessu máli. En þetta er hin argasta vitleysa, því að þótt svo sje sagt í frv. mínu: „Ef landsstjórnin felur öðrum rannsóknir þessar“ o. s. frv., þá er það ekki annað en varnagli, því að ef svo færi, að einstökum mönnum yrði leyft að virkja Sogið, þá er ekki nema rjett, að þeir kosti sömuleiðis mælinguna. En það getur hv. þm. (J. B.) aldrei borið mjer á brýn, að jeg hafi hopað nokkuð í þessu máli eða öðrum, því enn hefir hann ekki þurft að hvetja mig til framkvæmdanna, og jeg býst við, að við hverfum svo báðir af þessari jörð, að hann þurfi þess ekki.