17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2373 í B-deild Alþingistíðinda. (2667)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer sýnist það talsverður óþarfi hjá hv. frsm. meiri hl. (G. Sv.) að vera aftur að ræða það sama og hann sagði í gær, að það sje óleyfilegt, ef stjórn neitaði að framkvæma það, sem hún sjálf teldi órjett. Það er auðvitað alveg satt, að ef deilan er svo mikil milli þings og stjórnar, að þingið vill, en stjórnin ekki, þá er einn vegur til, sá, að stjórnin fari. En jeg sný ekki aftur með það, að það er ómögulegt að skipa stjórninni að framkvæma það, sem hún telur rangt, stofna til rangrar málssóknar. En hitt er rjett, að stjórnin fari, þótt það sje ómögulegt nú, þar sem stjórnin getur ekki gert meira en segja af sjer. Þykir mjer undarlegt að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) skuli tefja tímann með slíku óþarfahjali.

Og að það varði ráðherra ábyrgð, ef hann neitar þinginu að framkvæma eitthvað getur ekki heldur verið umtalsmál. Þegar svo stendur á, er sá vegur sjálfsagður, að skilji milli þingsins og stjórnarinnar. Þetta er svo ljóst og auðskilið mál, að ekki verður um deilt.

Jeg hefi sagt, að jeg teldi þessar þingsályktunartillögur lítils virði. En hitt sagði jeg í gær, að þessi till. væri miklu skýrari, og að því leyti betri en sú, sem hjer var á ferðinni í gær, að þar er gengið hreint til verks. En hún byggist á því, að bætur komi fyrir vatnið samkvæmt fossalögunum, sem þar er vitnað til, og er það alveg rjett út frá skilningi háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.).

Hitt er annað mál, hvort þess sje nokkur þörf að samþykkja þessa till. Jeg held, að þess sje ekki þörf, því að jeg tel vandalaust að semja við rjettan aðilja um að fá þessi rjettindi fyrir sanngjarnt verð.

En jeg skal ekki fara frekar út í þetta málefni, en vildi að eins láta þessa getið út af ummælum háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) við umr. í gær.

Hvað snertir það, sem hv. þm. V. Sk. (G. Sv.) var að tala um skakkaföll stjórnarinnar, þá er því til að svara, að þau eru engin til, og geta engin verið, þar sem hjer um bil alt, sem stjórnin hefir gert, er gott. Og ef hv. þm. (G. Sv.) vill taka upp eitthvað sjerstakt, þá geri hann það. Jeg skal reyna að svara. En jeg er ekki að svara óviðkomandi slagorðum innan um ræður í öðrum málum. Slíkar dylgjur þýða ekkert. Taki hv. þm. V.-Sk. eitthvert ákveðið atriði, skal jeg sanna honum, að það er alt rangt, er hann segir um það. (G. Sr.: Það getur hæstv. ráðherra aldrei sannað!).