17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2381 í B-deild Alþingistíðinda. (2671)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Bjarni Jónsson:

Jeg ætlaði fyrst að beina spurningu að hæstv. forseta, um þingskapaatriði. Ef jeg kann að skilja skrifað mál og leggja rjettan skilning í það, sem jeg les, þá fæ jeg ekki betur sjeð en þessi till. sje sú sama og 2. liður till. þeirrar, sem feld var hjer í gær Jeg skil því ekki, að hún geti komið til atkv. Jeg beini þessu að eins til hæstv. forseta, og vona, að hann gefi úrskurð um þetta efni. Jeg bendi ekki á þetta af þeirri ástæðu, að mjer sje á móti skapi, að till. komi hjer til atkv., en mjer þykir rjett að hlýða þingsköpum í þessu sem öðru.

Jeg vil benda hv. flm. á, að þeim var nær að sjá fótum sínum forráð og drepa ekki till. í gær, sem var sama efnis og þeirra eigin. Máli mínu til stuðnings skal jeg lesa 2. lið till., sem feld var, og bið menn síðan að bera hann saman við þá till., sem nú liggur fyrir. Liðurinn hljóðar svo (Alþingi ályktar að skora á landsstjórnina):

„Falli hæstarjettardómur í væntanlegu máli út af vatnsorkunáminu á þann veg, að einstaklingar eigi vatnsorku þá, er þeir hafa talið sjer en eigi ríkið, — að gera ráðstafanir til þess, að ríkið þá engu að síður nái, gegn bótum, fullum umráðum og notarjetti á vatnsorku Sogsfossanna.“

Þetta var felt með atkv flutningsmanna þeirrar till., sem nú liggur fyrir og samhljóða er. Það er hægt að vefengja, að till. sje eins, vegna orðalags, en fram hjá því verður ekki komist, að innihald þeirra er nákvæmlega eins. Jeg vænti þess, að hæstv. forseti gefi úrskurð um þetta efni, og skal því ekki ræða það meira.

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að bæta hjer miklu við um stjórnina og framkvæmd þessa máls. Það er rjett, sem hjer hefir verið haldið fram, að stjórninni ber að framkvæma það, sem þingið fyrirskipar, nema hún gefi þá yfirlýsingu, að hún muni fara frá. Ef hún gerir það ekki, ef hún lætur nægja að mótmæla, þá á hún ekki heimtingu á, að það verði tekið til greina. Ef stjórnin vill komast hjá að framkvæma eitthvað, sem þingið vill vera láta, þá verður hún að gera það að fráfararatriði, og ræður þá afl atkvæða, hvort hún situr eða ekki. En hún getur ekki skotið sjer undan framkvæmdum með því að slá því fram, að hún telji þær ekki rjettar, eftir á. Hún verður að segja það fyrirfram. Með því móti er hreint milli þings og stjórnar. (P. J. hlær). Hver er að hneggja?

Í þessari till. er vitnað til fossalaganna frá 1907, um að hver sje skyldur til að láta af hendi vatnsfall og annað því til heyrandi, gegn fullum bótum. Þegar vísað er til þessa, þá viðurkennir hv. deild, að um eign sje að ræða, eign á vatni í Soginu, og þetta ákvæði fossalaganna nái til vatnsorku. Það hefir verið vefengt með góðum rökum, að vatnsorka sje eign nokkurs sjerstaks manns, og þau rök eru óhrakin til þessa. Jeg vil ekki taka of djúpt í árinni, en jeg held, að óhætt sje að segja, að það sje vafasamt, hvort landeigandi á vatnsorkuna. En þessi till. verður óbeinn eignardómur, ef hún verður samþykt. Flm. lýsa því yfir, að þeir ætlist ekki til að þetta verði skoðað sem úrskurður, en þó ljetu þeir undir höfuð leggjast að greiða hinni till. atkv., sem fór með þetta atriði eins og vera bar. Ef þeir greiða nú þessari till. atkv., þá ganga þeir ofan í skýlausa yfirlýsingu sína. En kemur ekki mál við mig. Þeir um það.

Till. gerir sig seka um það að lýsa því yfir, að engin rjettaróvissa sje, og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) tekur undir. Þetta má heita furðudjarft og óvenjudjarft, því enn hafa þeir enga tilraun gert til að hrekja ástæður okkar og rök. Þeir gera sig að hæstarjetti og dæma eins og sá, er valdið hefir. Í þess stað hefði þeim verið sæmra að þegja sem vendilegast og bíða úrskurðar dómstólanna. Hæstv. stjórn hefði sjerstaklega átt að láta þetta mál hlutlaust. Það er skylda hennar að verja rjett landsins og láta ekki af honum, þó hún kunni að hafa einhverja aðra skoðun. Einstakir þm. geta staðið hjer upp og lýst því yfir, að þeir vilji ekki láta þetta mál ganga til dómstólanna, en það horfir öðruvísi við, þegar hæstv. stjórn gefur þá yfirlýsingu, að hún vilji ekki leggja rækt við hag landsins. Jeg álít, að stjórnin gangi hjer í berhögg við skyldu sína.

Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú talið, flyt jeg þá brtt., að nema í burtu tilvitnunina í fossalögin. Þá má samþykkja till., og held jeg, að þá verði enginn til að mótmæla henni. Það skiftir ekki máli, þó till. nefni enga heimild; stjórnin getur sjálf fundið lagagreinar, sem hægt er að fara eftir.

Annars er ekki gott að ákveða alt um töku slíkra hluta sem hjer um ræðir. Þó það verði ofan á, að landeigandi eigi ekki vatnið, þá á hann þó landið meðfram og landið undir og þegar taka á vatnsorku, verður að taka land eignarnámi. En til þess eru heimildir í lögum, og gæti stjórnin heimtað þær með sjerstökum lögum, en þess þarf ekki. En það er fleira, sem athuga þarf, og kem jeg þá að því, hvernig meta eigi. Hvernig á að meta landið undir vatninu? Á að meta það eftir vatnsorkunni, sem ofan á er, og hestaflafjöldanum, sem fengist ef virkjað væri, eða á að meta það sem land með sömu gæðum og bakkana í kring? Og hvernig á að meta bakkann? Á að meta hann með hliðsjón af tilvonandi virkjun, á að skoða hallann sem verðmæti landeiganda, eða á að meta bakkann sem hvern annan óræktaðan blett? Það hefir hingað til ekki þótt neinn kostur á landi, að því hallaði, en nú er það að verða kostur, og hver á þá það verðmæti, sem þannig skapast? Hvort á heldur að líta svo á, að hver og einn eigi lagið á sínu landi, eða að ríkið eigi lagið á öllu landinu? Halli kemur af ýmsum orsökum, sem lesa má um í jarðfræði, en fáir munu bera það, að landeigendur hafi unnið þar að eða valdið hallanum. Þá verður spurningin, hverjum beri þetta nýja verðmæti. Þetta vildi jeg benda á til stuðnings stjórninni í kröfum sínum landinu til handa.

Það getur verið, að mörgum þyki það kynlegt, að jeg skuli bera fram þessa brtt. eftir atkvgr., sem fram fór í gær, en þó ber jeg hana fram í von um, að hún verði samþykt. Jeg held, að misskilningur hafi ráðið atkv. í gær. Menn hafa lesið „Morgunblaðið“ og grein Jóns Þorlákssonar verkfræðings í því. Það var allítarleg grein, og í öllum atriðum rjett, ef litið er á málið frá sjónarmiði meiri hlutans í milliþinganefndinni. En í greininni var þó ein hættuleg villa, og hún mun hafa ráðið atkv. þm. Þar segir, að vatnsorka sje margfeldi vatnsmagnsins og fallhæðarinnar, og þess vegna sje ekki samræmi í að segja, að báðir eigi. En hjer ber þess að gæta, að þetta margfeldi er aðeins reikningsmargfeldi, og er ekki um vatnsorku heldur hestorkutölu að ræða. Vatnsorkan er eðlilegt orsakaframkvæmi, en ekki reikningsframkvæmi, og hún stafar af vatni og halla. Tveir aðiljar mynda þessa orku, og eins geta tveir átt hana. Ef jeg kem með tvo hluta af Hydrogenium og annar með einn af Oxygenium, þá getum við átt saman það vatn, sem við myndum. Eins er um vatnsorkuna. Það er misskilningur að halda, að hún geti ekki verið eign tveggja. Þetta hefir vilt menn í gær, og leiðrjetti jeg það ekki þá, vegna þess, að jeg hafði ekki lesið greinina. En nú þegar menn hafa fengið þessa skýringu, þá geta þeir rólegir felt niður tilvitnunina í fossalögin.

Það var gleðibros á sumum andlitum hjer í gær, þegar till. var feld um að láta dómstólana skera úr eignarþrætunni. Það var skiljanlegt, þegar aðgætt var, á hvaða hálsum þessi andlit sátu. Það var sigurvon Títanana, sem lýsti sjer þar, gleði yfir því, að þurfa ekki að eiga á hættu að leggja málið undir dóm. Þeir eru ekki jafnsannfærðir um rjett sinn og þeir vilja láta í veðri vaka, en nú þótti þeim vænlega horfa, þegar þingið átti að úrskurða um eignarþrætuna. Eftir að sá úrskurður hefði fallið einstaklingunum í vil, en þjóðinni til skaða, þá væri hægt að taka eignarnámi samkvæmt 12 gr. Það væri hægt að hirða þessar reitur Títans, sem það hefði keypt á nokkur hundruð, og borga þær eftir mati — 12 miljónir kr., því vitanlega yrði svo hátt metið.

Jeg mun síðar víkja nánar að þeim mönnum, sem sátu brosandi móti þeim framtíðardraumum, sem jeg lýsti, og jeg mun gera það þar, sem fleiri geta heyrt til mín en hjer.

Brtt. mín fer fram á, að tilvitnun í fossalögin verði feld burtu; hún spornar við því, að þingið geti gefið yfirlýsingu um eignarrjett á vatni, því að þingið er málinu ekki nógu kunnugt til að gera það, enda er það ekki í þess verkahring Jeg býst við því, að fylgifiskar stóriðnaðarins verði á móti henni, en vona, að þeir sjeu ekki svo mannmargir hjer, að þeir ráði úrslitum. Ef þeir fengju að ráða í þessum málum, þá liði ekki á löngu áður en Sleipnir virkjaði Hvítá, Titan Þjórsá og Ísland Sogið. Þá fyrst, þegar það væri um seinan, fengju bændur að sjá, hvernig þingbændur gættu nú þeirra hagsmuna, hvernig þeir hjálpuðu bændastjettinni með þessum hætti, með því að flana forsjárlaust út í opinn þjóðardauða.