17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Pjetur Jónsson:

Jeg býst við, að ef þessi tillaga verður samþykt hjer, þá sje í henni fólgið hið eina svar, sem þingið gefur við þeirri málaleitan, sem kom til stjórnarinnar 1917 frá fjelaginu „Íslandi“, um að fá leyfi til að virkja Sogsfossana. Mjer þótti því ekki fjarri, að jeg tæki nú til máls, þar sem jeg er einn í stjórn þess fjelags, eða rjettara sagt að þegja ekki með öllu. En það tek jeg fram, að jeg hefi ekkert umboð frá fjelaginu til að færa þinginu nokkur skilaboð frá því. Það, sem jeg segi um afstöðu fjelagsins, er því ekki annað en getgátur frá mínu eigin sjónarmiði.

Jeg tók það fram áður, að mjer sýnist þetta eignarnám óþarft, því að jeg lít svo á, að ríkið hafi óbeinan hindrunarrjett og að það geti komið í veg fyrir, að stærri fossar sjeu virkjaðir, af hverjum sem vill, hvort heldur það er fossafjelagið „Ísland“ eða aðrir. Þetta er og skiljanlegt, ef litið er í frv. 1917. Þar fer fossafjelagið fram á heimild, sem það gat ekki fengið nema með sjerstökum lögum og samþykki stjórnarinnar. Það er því víst, eða viðurkent, að til er hindrunarrjettur hjá ríkinu gegn virkjun fossa. Auk þess eru nú á döfinni hjer í deildinni þrjú sjerleyfislagafrv., og er ekki ólíklegt, að eitthvert þeirra verði að lögum áður en langt um líður; og fyr en sjerleyfislög eru komin í kring geri jeg varla ráð fyrir, að veitt verði leyfi til að virkja fossa hjer. Því hygg jeg algerlega óþarft að vera nú að skipa stjórninni að taka fossa eignarnámi handa landinu. Ef það verður ofan á, að ríkið taki að sjer að virkja fossa, getur virkjunin þó eigi hafist fyr en málið er orðið undirbúið, rannsóknir og áætlanir gerðar og fje fengið; þá fyrst er tími til kominn að fara að framkvæma eignarnám, ef á þarf að halda, og þá fyrst er hægt að láta það fram fara á þann hátt, sem fyrirtækinu hentar best. Nú fer tillagan fram á það, að landsstjórnin geri nú þegar ráðstafanir til þess, að landið nái fullum umráðum og notarjetti á allri vatnsorku í Soginu, alt frá upptökum þess og þar til það fellur í Hvítá, ásamt nauðsynlegum rjettindum á landi til hagnýtingar vatnsorkunni. Auðvitað getur þó enginn sagt fyrirfram, hvað mikið af vatnsorku er nauðsyniegt eða heppilegt að nota, nje heldur hvað mikið af landi og landsnytjum muni þurfa að hagnýta; það mun því mega búast við, að vissara þyki að hafa vaðið fyrir neðan sig og taka ríflega til af hvorutveggja. Leiðir það af sjálfu sjer, að eignarnámið kostar ríkið meira ef það er gert af handahófi, eins og það verður að gerast, ef eftir tillögunni er farið, heldur en ef það er gert eftir ákveðinni áætlun. Jeg held, að tillaga þessi ætti að hljóða sem heimild handa stjórninni, ef á annað borð er þörf á henni, sem jeg tel naumast vera. Í öðru lagi álít jeg, að ef ríkið ætlar sjálft að virkja þessa fossa, megi það ekki dragast; það mundi vera óheppilegt að hleypa öðrum samskonar stórfyrirtækjum á undan ríkisfyrirtækinu, og geta væntanlega allir áttað sig á því. Auk þess er það, að þörfin á raforku handa Reykjavík sjerstaklega og Suðurlandsundirlendinu rekur mjög eftir því, að sem fyrst sje tekið að virkja Sogsfossana. Jeg sje því ekki betur en að um leið og ríkið tekur eignarnámi Sogsfossana og landið við þá, þá sje ríkið og neytt til þess að hefjast handa þegar í stað, því að öll töf af ríkisins hálfu mundi tefja fyrir öllum fossafyrirtækjum hjer á Suðurlandi, og annarsstaðar er ekki líklegt að ráðist verði í fossavirkjun í stærri stíl, að svo stöddu. En þá dettur mjer í hug, hvort það muni ekki verða tafsamt fyrir ríkið að koma því fyrirtæki á stað, að virkja Sogsfossana með eigin mætti. Það er hætt við, að það mundi reynast erfitt fyrir ríkið að útvega nægilegt fje með viðunandi kostum og góða krafta til að koma upp jafnstóru fyrirtæki og hjer er um að ræða, og svo að reka það. Jeg lít svo á, að ekki sje líklegt, að hægt sje að koma upp stórum fossafyrirtækjum fyrir innlent fje. Það eru atvinnuvegirnir hjer í landi, einkum sjávarútvegur og verslun, sem fjenu safna; en jeg geri ráð fyrir, að þeir hafi sjálfir alveg nóg með það fje að gera í sína eigin þágu, jafnóðum og það kemur. Jeg hefi ekki trú á, að fje verði safnað hjer innanlands fyrst um sinn til að setja í fossafyrirtæki eða stóriðnað. Ef hugsa á til að virkja stórfossa hjer í bráð, þá býst jeg við, að menn verði að sætta sig við að nota aðallega til þess útlent fje. Verður þá um tvo vegi að velja, annaðhvort að ríkið taki lán, ef fæst, eða þá að grípa til þess ráðs, sem víða er notað, að safna hlutafje til fyrirtækisins.

Jeg veit ekki, hvernig takast mundi að fá stórlán í náinni framtíð. Líklega verður það þó örðugt og vandkvæðum bundið að fá það með viðunandi kjörum. Jeg hefi dálitla hugmynd um, hversu örðugt Reykjavíkurbæ veitti að fá tiltölulega lítið lán til að koma upp hjá sjer rafmagnsstöð. Af því má nokkuð ráða, að ekki muni hlaupið að því fyrir landið að fá stórlán, sjálfsagt 20–30 miljónir króna eða þaðan af meira, til samskonar fyrirtækja, sem þó mundi ekki nægja til að virkja nema Sogsfossana eina. Hin aðferðin er hugsanlegra að framgang geti fengið, sú, að safna hlutafje utanlands og innan, og veita þannig fje inn í landið; hún á sjer mörg fordæmi og hefir oft lánast vel. Það er sá kostur við þetta, að þeir, sem fjeð leggja til, taka veðið í fyrirtækinu sjálfu. Þetta mun vera sú aðferð, sem mest hefir verið notuð í Noregi við fossavirkjun þar í landi, og hafa þar mörg fyrirtæki verið stofnuð á þessum grundvelli.

Þá kem jeg aftur að fossafjelaginu ,,Íslandi“; það var einmitt þessi aðferð, sem þar var hugsað að viðhafa; það ætlaði að gera sig að millilið milli fossaflsins og fjármagnsins og tengja hvorttveggja saman. Þessi mun og hafa verið tilgangur þeirra annara fossafjelaga, sem stofnuð hafa verið hjer. Það er margur, sem ekki hefir mikið álit á þessum fossafjelögum, og svo var um mig framan af, að jeg var í miklum vafa um, hvort fyrirtækið væri svo nytsamlegt fyrir okkur, eða líklegt, að nokkuð yrði um hagkvæmar framkvæmdir af þess hálfu. En fyrir þing 1917 kom það í ljós, að fjelagið hafði náð sambandi við þá menn, sem nægileg fjárráð höfðu, og hafði yfir að ráða bestu sjerfræðikröftum í raforkufyrirtækjum, sem kostur var á á Norðurlöndum. Þá fjekk jeg trú á að ef til vill gæti tekist samvinna milli þessara manna og löggjafarvalds vors, til þess að gera eitthvað verulegt úr fossahugmyndinni, sem svo mikið og lengi hafði verið rætt um.

Jeg geri ráð fyrir, að ef svarið til þessara manna verður það, að þingið samþykki þessa tillögu, þá muni með því verða slitið allri samvinnu milli þeirra og íslenska ríkisins. En þá álít jeg ver farið en heima setið, því að jeg er sannfærður um, að hjer hefði mátt koma á samvinnu, sem bæði hefði getað verið í alla staði tryggileg fyrir þjóðfjelagið, og annars vegar gefið mögulegleika, sem ekki eru sýnilegir nú, til að fá fje til fyrirtækisins og góða krafta til að framkvæma það. Jeg hugsa mjer að líkt hefði mátt að fara eins og kostur var á þegar Íslandsbanki var stofnaður. Þá stóð ríkinu til boða að taka hlut í fyrirtækinu, alt að 40% af hlutafjárupphæðinni. Líkt hefði mátt haga til hjer; það hefði mátt gera það að skilyrði fyrir leyfisveitingunni, að ríkið hefði álíkan hluta fjárins í sínum höndum. Með þessu og þeim sjerleyfislögum, sem sett mundu verða, mundi svo um búið, að landinu stæði engin hætta af fyrirtækinu; en hins vegar ætti það að geta haft sama hagnað af þessu eins og hverjum öðrum stóriðnaði, sem hjer væri rekinn með fyrirhyggju og það þó því fremur, sem landið ætti að geta haft tögl og hagldir um iðnreksturinn. Þetta er sú hugsun, sem jeg vil berjast fyrir, af því að jeg hefi ekki trú á, að við sjeum þess megnugir að koma á stórfossarekstri af sjálfsdáðum, og að á meðan við getum ekki lagt eða viljum leggja út í samvinnu við aðra, þá muni fossarnir seint verða okkur fjeþúfa. Það er nú búið að eyða svo miklum tíma og umræðum til að undirbúa fossamálið, að við ættum nú að vera orðnir færir um að gera ráðstafanir um hagnýting fossaflsins í landinu svo sem best hentar þjóðarhögum okkar og þjóðlífi.