17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Matthías Ólafsson:

Jeg kann ekki við að greiða svo atkvæði, að jeg geri ekki fyrst stutta grein fyrir atkvæði mínu. Jeg get ekki verið með þessari till. Í fyrsta lagi af því, að jeg get ekki sjeð, að stjórnin geti framkvæmt þetta lögnám. Hún getur ekki tekið þessa eign meðan engar áætlanir liggja fyrir, veit ekkert um verðið, nje hversu mikið hún á að taka. Því að eins og hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir tekið fram, þá getur stjórnin ekki tekið landeign, sem hún veit ekki um stærðina á. En þó að þessi háttv. þm. væri að fetta fingur út í þessa till., þá hafði till. hans sjálfs sama galla. (E. A.: Jeg hefi ekki borið fram neina till. í þessa átt). Hv. þm. studdi þó samskonar till.

Í öðru lagi er það, að margt þarf að gera áður en þetta væri framkvæmt. Það er ekki nóg, að landið slái að eins eign sinni á fossana. Jeg trúi sannarlega ekki, að fyrirtækið komist fyr í framkvæmd fyrir það, þó að landið eignist fossana. Jeg álít, að þetta kæmist fyr í framkvæmd, ef það væri falið einhverjum fjelögum. Jeg vil, að fyrirtækið komist sem allra fyrst í framkvæmd, og jeg hefi þá trú, að ef það yrði falið þeim, sem nú hafa þennan rjett, mundi það komast miklu fyr í framkvæmd. Jeg er vantrúaður á, að landið leysi það eins fljótt af hendi. Af þessum ástæðum er jeg móti till. Auk þess er jeg vantrúaður á öll ríkisfyrirtæki. Þau hafa ekki gengið svo vel hjer á landi. (J. B.: Hver rekur símamál, póstmál og skipaútgerð?). Þar er alt öðru máli að gegna.