17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get því miður ekki gefið skýr svör við þessari spurningu, því að stjórnin hefir ekki borið sig saman um þetta atriði.

Hv. þm. (E. A.) vildi fá að vita, hvernig stjórnin skildi 12. gr. fossalaganna. Jeg get ekki svarað því beinlínis, því að ákvæði 12.–14. gr. eru ekki alveg skýr.

Það getur verið, að skilningur hv. 2. þm. Árn. (E. A.) sje rjettur. Jeg þori ekkert um það að segja.

Jeg get tekið undir það með hv. 2 þm. Árn., að ef deildin álítur nauðsynlegt, að ríkið fái Sogið, þá virðist það vera líklegasta leiðin að leita fyrst hófanna um að komast að þessu með samningum. og skýra síðan þinginu frá, hvort þetta væri kleift eða ekki, og þá mætti ákveða, hvort lögnám skyldi fram fara eða ekki. Því að ef það ráð verður tekið, að taka fossaflið lögnámi, verður stjórnin að borga það eftir mati, hvort sem það verður metið hátt eða lágt. Þetta gæti orðið dálítið skýrara, ef samningaleiðin væri reynd. Jeg býst við, að hver kaupmaður mundi fara þannig að. En sem sagt verður deildin að ráða, hvort hún vill samþykkja till. eða ekki.