03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurður Sigurðsson:

Jeg skal nú ekki eyða tímanum með því, að þrátta um þetta við hæstv. fjármálaráðherra (S E.). En ræða hæstv. fjármálaráðherra var þannig, að hann varð æ heitari eftir því sem á leið, og bað þess allra bæna að endingu, að tillaga mín næði ekki fram að ganga.

Jeg hefi leitað að upplýsingum um stofnun þessa embættis og starfssviðs í athugasemdum stjórnarinnar. En það er skemst af að segja, að jeg hefi engar fundið. Þessu mun sennilega svarað á þann veg, að nafnið „sendiherra“ gefi þetta best til kynna. Það er tekið fram í athugasemdunum, að það verði að launa honum vel og að starfinu fylgi mikill kostnaður. — Um það skal jeg ekki efast. — Hann á að halda dýrar veislur, og auk þess er ýmislegt fleira, sem kemur til greina.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) sagði, að þessi maður ætti að vera talandi auglýsing um sjálfstæði þjóðarinnar. Jeg veit ekki, hvort hans eigin persóna verður það. Hitt finst mjer nær sanni, að hann yrði auglýsing um tildur og hjegómaskap íslensku þjóðarinnar.

Jeg hefi gert ráð fyrir með brtt., að sá góði maður, Jón Krabbe, annist skrifstofuna áfram. Og fullyrt er, að það sje maður, sem starfi sínu sje vaxinn og láti sjer mjög ant um Íslandsmál. Hefði jeg því haldið, að hann gæti verið sá vörður erlendis, fyrir Íslands hönd, er vjer mættum vel við una fyrst um sinn. En þegar þjóðinni vex fiskur um hrygg efnalega, þá er ekki útilokað, að þjóðin sjái sjer fært að hafa dýran sendiherra í Kaupmannahöfn.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) var fyrir skemstu að útmála fjárhag landsins og sagði, að við værum að komast í skuldir svo miljónum skifti. Hann ætti þá ekki, svo að segja á sama augnabliki, að leggja því liðsyrði, að stofnað sje dýrt embætti, embætti, sem hlýtur að verða æ dýrara og tilfinnanlegra, er fram líða stundir.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) taldi, að ef tillaga okkar yrði samþykt, bæri það vott um skilningsleysi þingdeildarmanna á því, hve utanríkismálin eru þýðingarmikil hverri þjóð. Þessu verð jeg algerlega að mótmæla. Það stendur í engu sambandi við skilning, eða skilningsleysi, á slíku, þó að tillagan verði samþ.

Hann talaði líka um það, hæstv. fjármálaráðherra S. E.), að þjóðin mundi fordæma þessa sparsemi síðar meir. Nei. Þjóðin er þroskaðri en svo. Hún kann að meta hverja viðleitni til sparnaðar. Og ekki síst þegar um stofnun svo óþarfs og meiningarlauss embættis, sem þetta fyrirhugaða sendiherraembætti er, er að ræða.