23.09.1919
Neðri deild: 71. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Einar Jónsson:

Því miður er nú svo komið öllum þessum fossamálum, að eftir alt stritið og stríðið, sem fossanefndin og þessi hv. deild hafa átt í, geta menn ekki lengur sjeð rjetthverfu þeirra mála, heldur snýst ranghverfan upp í greip manns, hvar sem á er tekið.

Jeg hjelt þó, að í fossanefndina hefði verið valið svo, að við starf hennar gætti mest framsýni og framsókn, svo að þessi gæði landsins gætu komið að notum sem best og sem fyrst.

En í stað þess er alt, sem frá henni kemur, eintómt afturhald og ónýtt verk, sem orsakast af því, að nefndin hefir orðið ósamþykk innbyrðis.

En aðallega var það ræða hv. þm. Dala. (B. J.), sem kom mjer til að biðja um orðið.

Hið fyrsta hugsanlega hjá hv. þm. Dala. (B. J.) er að gera eitthvað 6 árum eftir stríðslok. En hvers vegna er þá þessi undirbúningur nú?

Alt, sem þessi hv. þm. (B. J.) hefir skrifað um málið, og það er ekki alllítið orðið, hefir reynst til sundurþykkis og bölvunar. Hann er altaf að tala um hættuna, sem stafa muni af innflutningi útlendinga, og jafnframt um þá stórhættu, að innlendir menn, bændur og búalið, mundu leita atvinnu við stóriðnaðinn, og stóriðnaðurinn mundi þannig gleypa landbúnaðinn. En til hvers á að flytja inn útlendingana, ef ekki í þarfir iðnaðarins? Jeg held, að innlendir menn gætu setið áfram við sitt starf, að minsta kosti fyrst um sinn.

Svo vil jeg bæta því við, að ef till. á þgskj. 936 felur það í sjer, að lögnám Sogsins eigi að verða dómstólamál, þá get jeg ekki greitt henni atkvæði. En ef svo er ekki, þá greiði jeg atkvæði með henni.