16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2733)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Sigurður Sigurðsson:

Eins og getið er um í nál. samvinnunefndar á þgskj. 792, og sömuleiðis eins og hv. frsm. (G. Sv.) tók fram, þá greiddi jeg atkvæði á móti því, að þingsál. á þgskj. 794 kæmi fram. Jeg skal nú í fám orðum gera grein fyrir ástæðum þeim, sem valda því, að jeg var og er á móti því, að till. er fram komin, og að hún verði samþ. hjer.

Till. fer fram á það að skora á stjórnina að lýsa vatnsorku í afrjetti og almenningi eign ríkisins og gera ráðstafanir til, að rifting fari fram á gerningum einstakra manna eða fjelaga um þessa orku að svo miklu leyti sem það sýnist koma í bága við þennan eignarrjett ríkisins — Hjer er ekkert, sem kallar að, ekkert, sem heimtar að nú þegar verði í þetta ráðist. Jafnvel þó því væri slegið föstu, að ríkið ætti alla vatnsorku í almenningum, þá er langt frá því, að aðkallandi sje nú eða nauðsynlegt að gera frekari ráðstafanir en gerðar eru þegar.

Eins og kunnugt er, þá er vatnsvirkjun eða vatnsorkuiðja enn ekki hafin, og það lítur ekki út fyrir, að hún verði hafin á næstu árum. Þó byrjað verði fyr eða síðar að virkja fossa, þá verður áreiðanlega byrjað fyrst á þeim, sem eru í bygð, en ekki á hinum, sem eru í afrjetti eða almenningi. Jeg býst við, að mannsaldrar líði þangað til þeir verða teknir til notkunar. Og hvað liggur þá á því, að skora nú á stjórnina að gera ráðstafanir? Jeg get ekki sjeð það. Stjórnin hefir þegar, að tilhlutun milliþinganefndarinnar, látið tilkynna, að hvaða niðurstöðu nefndin hefir komist í þessu máli, sem sje þeirri, að ríkið eigi vatnsorku í afrjettum og óbygðum. Hún hefir varað menn við frekari samningum um þessi efni, og þetta tel jeg nægilegt, eins og nú standa sakir.

Jeg tel enga þörf á að halda lengra. Verði þessi till. samþykt, og meti stjórnin hana nokkurs, geri t. d. gangskör að riftingu samninga, þá er það opinbert leyndarmál, að megnar deilur og málaferli munu rísa af því. Enginn veit hvar lendir, en allar líkur eru á, að það geti varðað einstaklinga og hreppsfjelög sem gert hafa samninga um vatn eða notkun vatnsorku, miklu eignatjóni. Af þessari ástæðu tel jeg till. óþarfa og ótímabæra. Jeg verð því að ráða frá að samþykkja hana, og það án tillits til skoðana hv. deildarmanna á eignarspursmálinu um vatnsorku í óbygð.

Þá vil jeg benda á eitt í þessu sambandi. Það er sem sje ekki víst, nema einstaklingar og hreppsfjelög kunni að eiga eitthvað af fossum í afrjettum. Það er alveg órannsakað mál.

Undir öllum kringumstæðum er till. óþörf og vanhugsuð og hlýtur að valda óeirðum, málaferlum og djöfulskap, ef hún verður samþykt og framkvæmd Einnig getur hún valdið miklu eignatjóni og er þá ver farið en heima setið.

Það er heldur ekki neitt, sem bendir á, að farið verði að virkja þessa fossa á næsta mannsaldri. Þegar farið verður að virkja fossa, þá verður það gert fyrst í þeim sveitum, þar sem samgöngur eru sæmilegar, eða liggja vel við samgöngum og samgöngubótum.

Að samþykkja þessa till. er gönuhlaup og ábyrgðarhluti. Svo fljótfærnisleg og vanhugsuð er hún.