16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2474 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. frsm. (G. Sv.) óskaði þess sjerstaklega, að jeg væri við þessa umr. Jeg get ekki skilið, hvers vegna jeg eigi sjerstaklega að vera hjer viðstaddur, því stjórnin hefir nú sagt af sjer, og alveg óvíst, hverjir skipi stjórn milli þinga. Við höfum enn ekki fengið neitt svar frá þinginu um eftirmenn okkar, en þó mun verða ákveðið um það áður en þingi er slitið. Af þessum ástæðum er ekki gott fyrir stjórnina að láta neitt uppi um þetta mál, enda tala jeg ekki hjer fyrir hennar hönd.

Jeg fyrir mitt leyti get ekki sjeð, hvaða þýðingu þessi till. á að hafa, en hún fer fram á það að stjórnin eigi að lýsa vatnsorku í óbygðum ríkiseign. Lögfræðingarnir í nefndinni hafa eflaust gert sjer grein fyrir þýðingu hennar, en jeg sje ekki, að gerðir stjórnarinnar öðlist frekar lagalegt gildi, þó hún hafi þessa till. að baki. Aðgerðir stjórnarinnar hafa því að eins þýðingu, að þær sjeu löglegar, en þessi till. verður ekki til að gefa þeim lagalegan bakhjarl. Með því að skipa stjórninni að rifta samningum hlýtur að koma til kasta dómstólanna. Jeg hefði því álitið fulla ástæðu til að gefa þessa yfirlýsingu í lagaformi, og þannig hygg jeg að farið væri að alstaðar annarsstaðar en hjer. Það hefði meiri kraft, meiri stuðning til stjórnarinnar í för með sjer. Þá gæti komið spursmál um takmörkin milli þess almenna löggjafarvalds og stjórnarskrárlöggjafarvalds, en jeg held, að ekki þurfi að fara út í það, því flestir munu á því máli að nefndin hafi þarna rjett fyrir sjer. Það væri vandaminst að búa til einföld lög um að rifta skyldi samningum sem gerðir væru og kæmu í bága við það, sem nefndin telur lög, og láta síðan dómstóla skera úr.

Það er að eins form sem skilur á, en jeg er sammála nefndinni um það hvað lög eru í þessu efni.

Jeg býst ekki við, að hv. frsm. (G. Sv.) heimti meira af mjer en að lýsa minni skoðun, og það hefi jeg nú gert. En um stjórnina í heild get jeg vitanlega ekkert sagt.