16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Bjarni Jónsson:

Jeg skal ekki tala langt mál, því að hv. frsm. (G. Sv.) hefir nú svarað öllu sem svara þarf. Að eins verð jeg að láta undrun mína í ljós yfir þeim skilningi, sem komið hefir fram á till. þessari, að hún gæti átt við beitilönd sem jörðum fylgja og eru eign einstakra manna.

Ef menn vilja nú athuga niðurstöðu fossanefndarinnar í þessu atriði þá er hún á þá leið, að skilgreining Grágásar er rjett enn í dag. Afrjett (eða afrjettur) er sumarbeit manna og geldfjárhöfn, en ekki landeign einstakra manna eða hjeraða, nema þar sem menn taka fje til upprekstrar í heimaland sitt, og kallast afrjett, þótt það sje eigi afrjett.

En eftir landamerkjalögunum má hæglega ákveða, hvað sje heimaland og hvað ekki. Hitt er einskis manns tilætlun að teknar sjeu með þesskonar afrjettir sem heita svo að eins að örnefni. Slíkt gæti jeg bent á t. d. í Dalasýslu; þar nefnist afrjett land það, sem tekið var undan Hlíðartúnslandi og lagt undir Sauðafell. En slíkar landeignir einstakra manna koma auðvitað ekki till. við.

Annars þykir mjer það dálítið undarlegt ef menn hika við að samþykkja þessa till. nú því jeg veit ekki betur en þessi hv. deild sje skipuð sömu mönnum nú og hún var árið 1916–1917, að undanskildum einum hv. þm. (S. St.), sem átti þá ekki sæti hjer. En þá var samþykt hjer þingsál., sem fer alveg í sömu átt og þessi. Sú þingsál. var afgr frá Nd. 8. janúar 1917 og er svo hljóðandi:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á landsstjórninn að gæta hagsmuna þjóðfjelagsins og rjettar landssjóðs til fossa og annara verðmæta í almenningum landsins og afrjettum þeim, er eiga heyra til neinni ákveðinni jörð einstakra manna eða sveitarfjelaga, með því

1. að komast að ábyggilegri niðurstöðu um það, hve langt yfirráðarjettur sýslu- og hreppsfjelaga yfir afrjettunum nái, samkvæmt þeim notum, er tíðkast hafa frá fornu fari (svo sem upprekstur, beit, fjallagrös, rótargröftur, skógarhögg, veiði) og gefa síðan hlutaðeigendum það til vitundar.

2. að láta fram fara rifting á öllum samningum, er sýslur eða hreppar kunna að hafa gert við einstaka menn eða fjelög og í bága koma við rjett landssjóðs“.

Þar með er sagt, að rannsaka skuli þetta mál, og hefir landsstjórnin hlýtt þeirri skipun. Sú rannsókn var fyrst falin fyrverandi landritara, Klemens Jónssyni og lauk hann rannsókninni, en vildi ekki þegar til kom afhenda árangurinn, og var það af skiljanlegum ástæðum.

Síðan var fossanefndinni falin rannsóknin, og hefir hún nú einnig framkvæmt hana. Og nú er einmitt um það að ræða að gefa hlutaðeigendum til vitundar niðurstöðuna, eins og farið er fram á í þingsál. 1917. Þetta er til þess gert að landsmenn viti um málið og fari ekki að dæmi annara í því að selja afrjettarlönd eða vatnsrjettindi þar.

Við Þjórsá t. d. hafa ekki að eins verið seld vatnsrjettindin, heldur og afrjettarlöndin.

Það ætti nú ekki að verða torsótt, að sama þing sem samþ. þingsál. 1917 samþ. einnig þessa till., sjerstaklega þar sem allir eru sammála um það að sú skoðun sje rjett, að ríkið eigi afrjettarlöndin.

Þá var síðari hluti till., að rifta skuli samningum sem fara í bág við þessa skoðun. Það er auðvitað sjálfsagt, að stjórnin geri það, þar sem hún bæði veit og heyrir, að það er allra skoðun að afrjettarlöndin sjeu eign ríkisins. Og það er ekki nema rjett, að þessi áskorun sje nú ítrekuð með till. þessari.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) lagði áherslu á það, að verra væri að þetta kæmi fram í þingsál.formi en lagaformi. Það má rjett vera og jeg fyrir mitt leyti hefi ekkert á móti því, að það kæmi fram í lagaformi. En þetta fer þó eftir því, hve á er litið. Ef heimta á rjettinn, þá hefir þingsál. lögfræðilega minna gildi en lög en stjórnarinnar vegna ætti þeirra ekki að þurfa, því að í hverju þingfrjálsu landi hlýtur stjórnin að fara að vilja þingsins, í hvaða formi sem hann kemur fram.

En annars vil jeg benda á það, að ýmsar fjárveitingar hafa hjer verið leyfðar með þingsál., með því móti að taka þær upp í fjáraukalög seinna, og hefir stjórnin ekki kynokaði sjer við að sjá um slíkar framkvæmdir, þótt komið hafi fram í tillöguformi.

Jeg held því, að hjer sje stjórninni trygt það, að ekki verði gerð ábyrgð á hendur henni, þótt hún eyði því fje, sem með þarf, í þetta. Henni ætti því að vera það full trygging að hafa till. þessa að baki sjer, ekki síst þegar hún fekk nú samskonar áskorun í ársbyrjun 1917.