23.09.1919
Efri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2494 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg hafði búist við, að hv. frsm. tæki fyrstur til máls, eins og venja er til, en svo var ekki, og jeg kem ekki auga á, að hann sje hjer í deildinni. Jeg var í minni hluta í fossanefndinni, en þó hlyntur því, að þessi till. kæmist inn á þingið. En jeg tók í upphafi þá stefnu í fossamálinu, að hindra það eftir mætti, að ríkinu væri hleypt í málaferli út af eignarrjettinum á vatninu. Till. gæti ef til vill leitt til málaferla, en það er auðvelt að koma í veg fyrir þá hættu með því að víkja henni ofurlítið við. Ef afrjettirnar eru feldar burtu úr till., hygg jeg, að lítill ágreiningur mundi verða um hana. Jeg tel því rjettast að skjóta málinu til 2. umr. og breyta till. þá til hins betra.

Annars læt jeg mjer í ljettu rúmi liggja, hvort fram komin dagskrá verður samþykt eða ekki, því að mínu áliti er tillagan ekki mikilvæg.