23.09.1919
Efri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (2754)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Eggert Pálsson:

Jeg get tekið undir með hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) um það, að orðalag till. er næsta óljóst. „Afrjett“ er notað í mismunandi merkingu: til eru afrjettarlönd sjerstakra jarða; einnig hafa fjallajarðir verið keyptar af viðkomandi sveitarfjelögum og lagðar undir afrjettina, og þá auðvitað nefndar sama nafni. (G. B.: Það er ekki átt við þær afrjettir). Það sjest ekki á till. Jeg hygg, að auðvelt væri að orða till. svo að þetta orki ekki tvímælis. En aðalatriðið í þessu máli er að mínu viti það, að vatnamálin eru yfirleitt komin í það horf, að ekki er viðeigandi að taka þetta eina atriði út úr og afgreiða það á þessu þingi. Það er hrein mótsögn að leggja dóm á þetta atriði eitt, fyrst þingið hefir tekið þá ákvörðun, að vísa öllum vatnamálum til stjórnarinnar. Við það vinst þjóðinni, þinginu og stjórninni tími til ítarlegrar athugunar. Jeg skil eigi annað en að nákvæm umhugsun eigi eins við um þetta atriði málsins. Jeg hlýt því að greiða dagskrá hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) atkvæði.