23.09.1919
Efri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

158. mál, réttur ríkisins til vatnsorku í almenningum

Guðmundur Ólafsson:

Háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) sagði áðan, að í till. væri ekki um annað að ræða en það, sem stjórnin ætti að gera ótilkvödd. Nú segir hann, að ekki sje hjer um önnur vötn að ræða en þau, sem ríkið eigi að allra dómi öll rjettindi til. En um þetta eru einmitt skiftar skoðanir. Afrjettir eru sumar hverjar eign einstakra manna eða sveitarfjelaga. Það virðist því fráleitt að hugsa sjer að stjórnin framkvæmi það, sem í till. felst.

Hv. 1. landsk. þm. (S. F.) vildi gjarnan, að till. yrði samþykt, en orðið „afrjett“ tekið út úr henni. Þó gat hann ekki fundið henni neitt til gildis. Hjer á þingi er altaf hægt að hafa eitthvað til dundurs, svo jeg sje ekki, að ástæða sje til að hleypa til síðari umr. till., sem ekkert hefir til síns ágætis. Jeg held fast við, að málinu beri að vísa til stjórnarinnar.