07.07.1919
Neðri deild: 2. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (2820)

Skipun fastanefnda

Gísli Sveinsson:

Jeg hafði leyft mjer að stinga upp á 7 manna nefnd af því einu, að 7 manna nefnd hefir unnið að samgöngumálunum á undanförnum þingum. Sje jeg ekki ástæðu nú til að víkja frá þeirri venju. Þótt heimilað sje í þingsköpunum að bæta mönnum við eftir þörfum, er það öðru máli að gegna. Og ef menn fallast á að rjett sje að 7 menn skipi nefndina, verður að telja það rjett að þeir sjeu allir kosnir á sama hátt.

Orsökin til þess, að þörf er á 7 mönnum í nefndina er sú, að þegar um samgöngumálin er að ræða, eru hagsmunir margra landshluta í húfi. Þar sem hver landshluti, eða svo að segja hver sýsla, á sinna hagsmuna að gæta í nefndinni, virðist svo sem 7 manna nefnd í neðri deild sje ekki of mikið.

Jeg sje enga ástæðu til að víkja frá þessari till., þótt svo horfi nú við í flokkaskipun þingsins að einstöku menn vilji nú heldur 5 menn í nefnd. Þar sem þeir áður vildu 7.