27.09.1919
Neðri deild: 75. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2518 í B-deild Alþingistíðinda. (2834)

Starfslok deilda

forseti:

Eins og dagskrá þessa fundar ber með sjer, liggur ekkert sjerstakt mál fyrir á fundinum. Ekki ætla jeg mjer heldur að fara að telja upp þau mál, er þessi þingdeild eða þingið í heild sinni hefir haft til meðferðar; það mun verða gert á fundi sameinaðs Alþingis í dag.

Hins vil jeg minnast, sem engum getur blandast hugur um, að þetta þing hefir haft óvenjulega mörg og mikilsverð mál með höndum, og í ýmsum greinum markað nýjar brautir. Þótt ýms hinna merkustu mála hafi ekki verið til lykta leidd á þessu þingi, mun því ekki verða með sanngirni mótmælt, að þingmenn yfirleitt hafi starfað með alúð og haft einlægan vilja á að vinna þjóðinni gagn. En hversu mjög sem stefnurnar eru ólíkar og skoðanirnar skiftar, má eiga það víst, að allra hugur sameinast í þeirri ósk, að þeir, sem þingsætin skipa í okkar stað, eftir næstu kosningar, beri gæfu til að leiða stórmálin til farsællegra lykta fyrir land og lýð, og alls yfir vinna að heill og hagsæld fósturjarðarinnar.

Í fundarlok finn jeg mjer skylt að þakka öllum háttvirtum þingmönnum þessarar deildar fyrir góðvild og umburðarlyndi, og óska þeim öllum gæfu og gengis.

Segi jeg svo þessum síðasta fundi deildarinnar slitið.