18.07.1919
Neðri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2844)

22. mál, sameining Dalasýslu og Strandasýslu

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg get verið mjög stuttorður um álit allsherjarnefndar í þessu máli. Eins og menn sjá af áliti hennar, á þgskj. 79, hefir hún orðið ásátt um að leggja til, að málinu verði frestað þangað til að hlutaðeigandi sýslunefndum hafi gefist kostur á að láta uppi álit sitt um sameining sýslnanna. Virðist svo, sem launanefndin frá 1914 hafi verið eindregið á sömu skoðun, er hún hafði þetta sama mál til meðferðar, að hlutaðeigandi sýslunefndir ættu að eiga kost á að láta uppi álit sitt. En ekkert það lá fyrir nú, sem sýndi, að sýslunefndum hefði verið tilkynt þetta, eða leitað álits þeirra. Býst jeg við, að flestum þætti óviðeigandi að gera út um svona mál, án þess þeim, sem málið varðar mestu, gæfist kostur á að láta uppi álit sitt. Við skulum taka til dæmis, ef leysa ætti upp Skaftafellssýslu og bæta Austur-Skaftafellssýslu við Suður-Múlasýslu, en Vestur-Skaftafellssýslu við Rangárvallasýslu. Jeg býst ekki við, að slíkt yrði gert án álits og samþykkis hlutaðeigandi sýslunefnda. Jeg skal ekkert segja um, hve nær hægt verður að fá álit sýslunefndanna í málinu, en býst við, að það verði stjórnarinnar að sjá um það.