14.08.1919
Neðri deild: 35. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2865)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Háttv. frsm. minni hl. (M. G.) hefir talað hjer langt mál frá sínu sjónarmiði. Mjer kom það ekki á óvart, þó að honum þætti málstaður minni hl. fagur. Háttv. þm. (M. G.) sagði um skilyrðin, að hann vildi helst losna við þau, en svo þegar til kemur telur hann þau alls ekkert viðsjárverð. Þarna skilur á milli. Við álítum skilyrðin athugaverð og frágangssök að ganga að þeim þeirra vegna.

Þá dvaldi hv. þm. (M. G.) lengi við gróðann, sem væri af seðlaútgáfu. Hann sagði, að þegar bankinn þyrfti ekki að hafa nema 40% í gulli, þá væru vextir af 60% gróði. Þetta væri rjett, ef enginn væri kostnaður við rekstur bankans og allir seðlarnir væru í umferð, en það kemur aldrei fyrir, að svo sje, og má aldrei koma fyrir. (M. G.: Það þarf þá ekki að borga af þeim á meðan). Vissu fleiri. En það skýtur skökku við, þar sem háttv. þm. (M. G.) sagði, að 60% væri hreinn gróði, og ber það vott um nákvæmni hans. Háttv. þm. (M. G.) þótti meiri hl. mála svart. Það kann vel að vera. En þegar fyrirmyndin hefir horn og klaufir, þá er eðlilegt, að það komi fram á málverkinu. Hitt getur líka verið álitamál, hvort hv. minni hl. er ekki litblindur í þessu máli. Það er nú alls ekki undarlegt, þó margir sjeu ragir við að gerbreyta því fyrirkomulagi, sem nú er, eftir þeirri reynslu, sem fengin er, og eftir þeim ályktunum, sem gera verður um framtíðina. En meiri hl. vill vera viss um það, að þegar breytt sje til, þá sje það gert til hins betra. Þá gat háttv. þm. (M. G.) um yfirfærslurjettinn, og taldi hann óhjákvæmilegan og eðlilegan. Um það geta ekki verið skiftar skoðanir, og það ætti að vera öllum ljóst, að Landsbankinn afsalar sjer rjetti, sem hann hefir nú, og tekur að sjer skyldur, sem oft geta orðið honum til skaða. (M. G.: Fær hann ekkert í staðinn). Hann fær aldrei það í staðinn, að þetta sje honum ekki til meira og minna tjóns eða óþæginda. Háttv. frsm. minni hl. (M. G.) var allstórorður út af því áliti meiri hl., að gengismismunur hjer og í Danmörku gæti orðið Landsbankanum til tjóns. Taldi hann það fjarstæðu. Veit þá háttv. þm. (M. G.) ekki, að myntlög og verðgildi peninga er tvent óskylt? Má benda á það, að Noregur og Svíþjóð hafa samhljóða myntlög, en þó er gengismunur nokkur í þeim löndum nú. Þar sem hann sagði, að í frv. stæði, að yfirfærslurnar ættu að vera Landsbankanum að kostnaðarlausu, þá gildir það ákvæði alls ekki um hið breytilega verðgildi peninga. Þann varnagla vantar einmitt í frv. Háttv. þm. (M. G.) fór því þarna með staðleysur einar.

Þá voru ummæli háttv. þm. (M. G.) um aukningu hlutafjárins allkynleg. Þau voru á þá leið, að Íslandsbanki mundi ekki auka hlutafjeð, nema hann gæti sjeð fyrir að koma því á vöxtu, og þá yrði það til góðs, því að það efldi framkvæmdir í landinu. Auk þeirra vafasömu hlunninda, sem af því leiða að láta arðinn af framleiðslu landsins renna út úr landinu, þá getur þetta verið athugavert að öðru leyti. Þegar nú Íslandsbanki er ekki lengur seðlabanki í eiginlegum skilningi, og það er hann ekki eftir þessu frv., og allar skyldur og ábyrgð seðlabanka eru komnar yfir á Landsbankann, þá þarf Íslandsbanki ekki að bíða eftir tækifæri til að ávaxta hlutafje sitt.

Hann getur skapað tækifærin sjálfur með því að stofna til ýmiskonar braskfyrirtækja hjer, sem vafasamt er að reynist langlíf eða til þjóðþrifa. Og þegar þessi fyrirtæki fara að velta um koll, þá kemur það á bak Landsbankans að bjarga fjárhagslegu áliti landsins út á við, og gæti honum orðið það örðugt að halda jafnvæginu á fjárreiðunum út á við, og inn á við, ef Íslandsbanki gengi langt í þessu efni. — Hjer eru margar auðsuppsprettur í landi, og er í aðsigi, að farið sje að reyna að færa sjer þær í nyt. Er þar opinn vegur fyrir Íslandsbanka til að ávaxta aukið hlutafje.

Þá talaði háttv. þm. (M. G.) um bankaráðið, og vildi gera lítið úr því. Það þýðir ekki að deila um, hvernig það hefir orðið í reyndinni, en hitt er meira um vert, hver áhrif það getur haft á framferði bankans, ef það beitir sjer. Bankaráðið hefir ekki að eins eftirlit með rekstri bankans, heldur hefir það vald til að hlutast til um stjórn hans og fyrirkomulag. Það getur því ráðið miklu um það, hvernig bankinn beitir sjer gagnvart landi og þjóð.

Eftirlitsmennirnir, sem frv. gerir ráð fyrir, eru algerlega valdlausir um allan rekstur bankans. Hlutverk þeirra er einungis það, að líta eftir því, að nægileg gulltrygging sje fyrir öllum þeim seðlum, er út eru gefnir. Lengra ná þeir ekki.

Háttv. frsm. minni hl. (M. G.) taldi það hart að orði kveðið, þar sem meiri hl. kallaði skilyrðin tjón fyrir Landsbankann. Já, meiri hl. dregur engar dulur á það, að hann lítur svo á. Annars verður hver að eiga um það við sjálfan sig, hvert álit hann hefir á skilyrðunum.

Þá taldi háttv. framsm. (M. G.) meiri hl. fara ekki rjett með, því að hann hjeldi því fram, að aukningin kæmi ekki fyr en seint og síðar meir. En háttv. framsm. (M. G.) viðurkennir sjálfur, að aukningin komi smátt og smátt. (M. G.: Jeg sagði, að hún kæmi eftir því sem viðskiftaþörfin krefðist). Já, og nú eru allar líkur til, að hún krefjist þess smátt og smátt, og þá fer aukningin eftir því. Annars erum við ekki að fárast yfir því, að Landsbankinn fái þetta ekki alt í einu, heldur yfir því, að hann skuli taka á sínar herðar allar skyldur og alla ábyrgð áður en hann hefir fengið það, sem á móti á að koma.

Háttv. framsm. (M. G.) drap einnig á það, að afstaða meiri hl. væri nú önnur en hefði verið áður en stjórn Landsbankans hefði átt tal við nefndina. Því er nú svo varið, að það er ekki á allra meðfæri að dæma um það í fljótu bragði. Jeg býst við, að allmargir háttv. deildarmanna viðurkenni, að þeir hafi ekki þekkingu á þessu máli eins og bankafróðir menn. (E. A.: Eru þeir til?). Það er hægt að segja menn mismunandi bankafróða, þó alfullkominn bankafræðingur sje ef til vill ekki til. Þetta mál lá fyrir okkur, og við urðum að dæma um það eins og við vorum menn til, með stuðningi og upplýsingum fróðra manna í þessari grein. Áður en við áttum tal við bankastjórnina þá höfðum við að eins fengið einhliða skýringu á málinu, og var því ekki að furða, þó að afstaða okkar meiri hl. yrði nokkru gleggri og ákveðnari við það að fá málið skýrt frá báðum hliðum. Háttv. framsm. (M. G.) sagði, að nefndarálitið væri einhliða. Þessi ummæli bera vott um það, að hann hefir ekki kynt sjer nál. nógu vel. Jeg er viss um, að ef háttv. þm. (M. G.) les nefndarálitið vandlega yfir aftur, þá sjer hann, að skoðun og niðurstaða nefndarinnar er fengin með samanburði á báðum hliðum málsins. Næsta atriðið hjá háttv. framsm. (M. G.) var um, að hollara væri að Landsbankinn stæði fyrir peningaverslun landsins. Þetta er alveg rjett, og svo hefði það átt að vera frá upphafi. En hjer er nú að eins um að tala leifar af seðlaútgáfu, sem Landsbankinn á að fá með ýmiskonar kvöðum og ókjörum.

Þá er spurning háttv. framsm. (M. G.) um það, hvað við meiri hl. menn ætluðumst fyrir. Hann sagði, að við gerðum ekkert annað en að rífa niður, en bygðum ekkert nýtt í þess stað, og þetta taldi hann með öllu óforsvaranlegt. Hann taldi það skýlausa skyldu okkar að gera eitthvað í þá átt, að seðlaþörfinni yrði fullnægt En bæði er það, að engin skylda hvílir á meiri hl. í þessu efni, enda kemur það ekkert þessu frv. við. Það er ekki í fyrsta skifti, sem svona lagaðar mótbárur eru notaðar. Það lá að eins fyrir nefndinni að athuga og taka afstöðu til þessa frv., og það hefir nefndin gert. Meiri hl. hefir komist að þeirri niðurstöðu, að skilyrðin væru óaðgengileg, og þá var það fyrsta skylda hans að sporna við því, að frv. væri samþ. Að meiri hl. fjárhagsnefndar hafi borið nokkur skylda til að leita nýrra samninga við Íslandsbanka, því neita jeg algerlega. Mjer virðist háttv. framsm. (M. G.) ljúka ræðu sinni með aðvörun til þingsins um það, að ef þetta frv. yrði felt þá myndi Íslandsbanki sýna þjóð og þingi í tvo heima.

Þetta eru nýjar upplýsingar í málinu, og eru þær síst til meðmæla þessu frv., ef þær hafa við nokkur rök að styðjast. En jeg geri ekki ráð fyrir, að svo sje. Jeg tel því ekki einasta hættulaust, heldur nauðsynlegt, að fella frv. Hvort það verður gert með dagskrá, eða á annan hátt, skiftir ekki máli.