14.08.1919
Neðri deild: 35. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2866)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Benedikt Sveinsson:

Jeg vildi segja örfá orð, út af því, sem háttv. framsm. minni hl. (M. G.) beindi til mín. Hann sagði, að jeg hefði áður talið Íslandsbanka hag að aukinni seðlaútgáfu. Þetta er rjett; jeg hefi altaf haldið því fram, að bankinn stæði sig við að láta landið sæta betri kostum, bæði við lánskjör og annað, vegna alls þess, er undir hann hefir verið hlaðið af þingsins hálfu, þar á meðal með auknum seðlaútgáfurjetti. En þrátt fyrir þessa skoðun þá verð jeg að mótmæla þeim getsökum, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) bar bankann, og þeim hótunum, sem hann hafði í frammi, til að reyna að hræða menn frá að fella þetta frv. Íslandsbanki hefir sínar skyldur gagnvart landinu, þótt frv. verði felt, og hann hefir margvíslegra hagsmuna að gæta hjer á landi. Það væri því óhugsandi, að hann færi að stofna landinu í viðskiftavandræði, þótt frv. yrði felt, því að þau vandræði mundu fyrst og fremst bitna á honum sjálfum. — En þótt Íslandsbanka hafi verið hagur að seðlaútgáfurjettinum, þá er engan veginn víst, að það sje landinu hagur að taka seðlaútgáfurjettinn með þeim kjörum — eða rjettara sagt ókjörum — sem hann er nú fáanlegur. Íslandsbanki fær að ýmsu leyti frjálsari hendur eftir en áður. Hann losnar við skyldur, sem lagðar eru á herðar Landsbankanum. Landssjóður missir tekjur miklar, er hann hefir haft af bankanum, og missir eftirlitið með þessum erlenda hlutafjelagsbanka. Þegar þetta alt er athugað, þá er von, að tvær grímur renni á menn. Jeg hefi aldrei haldið því fram, að Landsbankinn mundi bíða tjón við seðlaútgáfuna eina út af fyrir sig, ef hún fæst með sæmilegum kjörum. En hjer er á fleira að líta en seðlaútgáfurjettinn einan, svo sem minni hl. gerir mjög um of. Meiri hl. virðist hafa litið dýpra á málið; hann hefir ekki látið það glepja sig, að einhver hagur kann að verða af seðlaútgáfunni, hann hefir vegið þann hag á móti tekjumissi ríkissjóðs og kvöðunum, sem lagðar eru á landssjóð, en teknar ef hlutabankanum, og að öllu athuguðu komist að þeirri niðurstöðu, að útgáfa seðlanna verði þá ljettari á metunum. Jeg hefi fallist á röksemdir meiri hl. og þykist því vera í fullu samræmi við þá skoðun, sem jeg hjelt fram í þessu máli l917.

Mjer kemur það undarlega fyrir, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) skuli verða til þess að reyna að hræða menn frá að fylgja því fram í þessu máli, sem þeir álíta rjettast. Hann talar um, að óráð sje að fella frv., meðan ekki sje vitað, hvernig Íslandsbanki snúist í málinu, og setur það jafnvel í samband við viðskifti bankans og ríkissjóðs. Hann vildi gefa í skyn, að Íslandsbanki mundi jafnvel fara að vanrækja að fullnægja seðlaþörf landsins.

Jeg get ekki ætlað bankanum að gleyma svo algerlega þeim skyldum, sem á honum hvíla, og öllum kemur saman um að sjeu skýlausar. Máli mínu til stuðnings vil jeg drepa á það, sem nefnd sú, er skipuð var í vetur til að íhuga þetta mál, segir um þetta efni. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp þá umsögn:

„En þessi hagnaður (þ. e. af seðlaútgáfunni) er þó svo óbeinn og svo óviss, að ekki er unt að reikna með honum sem ákveðinni stærð. Enda kemur það líka í móti, að seðlabanki hefir sjerstakar skyldur að rækja gagnvart þjóðfjelaginu vegna seðlaútgáfunnar, sem valda því, að hann getur ekki eins hagnýtt sjer hvert gróðatækifæri, sem bjóðast kann. Stundum er seðlabönkum jafnvel bannað að taka þátt í sumri bankastarfsemi.“

Svo er og um Íslandsbanka. Honum var bannað að taka á móti sparisjóðsfje, þótt hann hafi síðar komið ár sinni svo fyrir borð, að það fyrirmæli hafi ekki staðið honum í vegi. — Þá segir enn fremur í nefndarálitinu:

„En þótt svo sje ekki, er það sjálfsögð skylda seðlabanka að líta fyrst og fremst á hagsmuni þjóðfjelagsins, en ekki að eins á eigin hag í bili.“

Þetta er skoðun nefndarmannanna um skyldur Íslandsbanka, og munu flestir undirskrifa hana. Kemur hún heldur en ekki öfugt við það, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) er nú að tjá og telja fyrir þinginu. Furðar mig, að æðsti valdsmaður landsins skuli flytja slíkar kenningar, þegar annars vegar er hagur og heill þjóðarinnar í heild, en hinum megin erlent auðfjelag. (Atvinnumálaráðh.: Forsætisráðherrann (J. M.) er ekki viðstaddur). Jeg get ekki gert að því, enda gat vart ætlað, að hann væri ekki áheyrsla mál mitt, er hann var hjer í ræðustól fyrir skemstu. En þótt svo sje ekki, þá er svo mönnum skipað hjer í salnum, að hann þarf ekki fyrir þær sakir að standa berskjalda.

Það þarf engan veginn að óttast, að Íslandsbanki haldi ekki áfram bankastarfsemi sinni, svo sem að sjá landinu fyrir nægum gjaldmiðli, þótt frv. þetta verði skorið niður. Enda vill svo vel til, að jeg hefi hjer yfirlýsing frá honum þar að lútandi. Hún stendur í nefndaráliti bankanefndarinnar, frá hr. Tofte bankastjóra sjálfum, þar sem hann segir, að hann telji að vísu ósennilegt, að bankinn muni fást til að takast framvegis á hendur seðlaútgáfu fram yfir 2½ miljón kr. — með strangari skilmálum en þeim, sem settir eru í einkaleyfi bankans, — en hins vegar sje hann fús til að gefa út seðla eftir þörfum, með þeim skilmálum, sem verið hafa. Þar sem slík yfirlýsing liggur fyrir á prenti frá nefndinni, sem talaði við hr. Tofte sjálfan, þá sjá allir, hve fráleitt það er að vera með grýlur um það, að ekki verði sjeð fyrir að afla landinu gjaldmiðils, ef frv. þetta fer fyrir ætternisstapa. — Það mætti að vísu sjálfsagt segja margt um það, sem farið hefir á milli hv. frsm. minni hl. (M. G.) og háttv. frsm. meiri hl. (E. Árna.). En sökum þess, að hv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) hefir svarað flestum þeim atriðum vel, þá sje jeg ekki ástæðu til að blanda mjer í þær umræður.