14.08.1919
Neðri deild: 35. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (2869)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skil ekki í því, hvernig á því stendur, að eftir því, sem jeg hefi heyrt, hefir háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) reiðst svo mjög við mig út af því, sem jeg sagði áðan.

Jeg hjelt þó, að ef hann hefir athugað þetta mál nákvæmlega, þá hlyti hann að skilja, að þetta eru nokkuð snubbótt málalok hjá háttv. deild, ef hún samþ. nú þessa rökstuddu dagskrá frá meiri hl. nefndarinnar.

Hann virðist ekki hafa athugað, að þessi samningur er gerður eftir beinni ósk Alþingis, þar sem till. var samþ. með 27 samhlj. atkv. í sameinuðu þingi. Var þar skorað á stjórnina að láta fram fara samninga um þetta við Íslandsbanka. Nú hefir stjórnin gert þetta, og hafa samningar þessir verið bornir undir þingið. Og Íslandsbanki hefir svarað málaleitan þessari og sagt: „Þetta vil jeg gera til þess að láta af hendi þennan rjett, þó jeg vildi helst fá að halda honum og mega gefa út seðla eftir því, sem viðskiftaþörfin krefur.“

Jeg álít því ekki rjett af háttv. nefnd að vísa málinu frá sjer hispurslaust, án frekari athugunar, og finst mjer, að menn geti skilið þá skoðun mína reiðilaust, og það því fremur, sem jeg hefi ekki lagt til, að frv. verði samþ., heldur að eins, að háttv. fjárhagsnefnd taki málið til rækilegrar athugunar áður en frv. er vísað frá.

Jeg lít líka svo á, að það sje blátt áfram skylda hennar að benda á, hvað gera skuli, ef frv. yrði felt.

Mjer datt ekki í hug að verða fyrir sjerstökum árásum í sambandi við mál þetta, og það kom mjer alveg á óvart, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) skyldi beita mig persónulegum meiðyrðum, svo sem því, að það væri vandi minn að hlaupa í felur, þegar mikilsverð mál væru til meðferðar. Jeg hjelt, að hann hlyti að skilja það, að ráðherrar hafa oft ýmsum störfum að gegna auk þingstarfa, svo að við getur borið, að þeir þurfi að bregða sjer frá, þegar minst varir.

Þetta hlýtur því að vera eitthvert óstjórnlegt reiðikast, sem gripið hefir hv. þm. (B. Sv.).

Ef til vill stafar það af því, að mjer var hjer einu sinni ekki nógu ljóst um hans ágætu hæfileika til að verða bankastjóri. Þetta eru því gamlar væringar. Annars getur það hugsast, að jeg fái tækifæri til andsvara, þó seinna verði.