14.08.1919
Neðri deild: 35. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2870)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Benedikt Sveinsson:

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) þurfti ekki að ganga að því gruflandi, hverja afstöðu jeg mundi taka til síðustu ræðu hans, því að hann var ómögulegt að skilja öðruvísi en að hann væri að reyna að hræða hv. þm. til þess að halda málinu gangandi þar til komist hefði verið að samningum við Íslandsbanka. En slíkt tel jeg alveg ranga aðferð. Bankinn getur verið harðari í kröfum, þegar hann hefir tvo kosti um að velja, heldur en eftir á, þegar honum er einbeygður kostur að halda áfram seðlaútgáfunni með sömu eða líkum kostum og áður, eins og hann hefir áður gert ráð fyrir, samanber það, sem bankanefndin hafði eftir hr. Tofte. Íslandsbanki er, sem hver annar seðlabanki, skyldur til þess að sjá landinu fyrir gjaldeyri, og þar sem hann hefir grætt á seðlaútgáfunni, þá fer hjer saman skylda hans og hagsmunir. Mjer kom því kynlega fyrir, þegar hæstv. forsætisráðherra (J. M.) fór að væna bankann um, að ríkissjóði stafaði hætta af honum, ef þingið feldi frv. áður en stjórnin hefði samið við bankann um skuldaskifti sín fyrir landssjóðs hönd, og eins væri öllu viðskiftalífi stýrt í voða. Jeg hefi sýnt, að til þess eru engar líkur.

Viðvíkjandi því, er hæstv. forsætisráðherra (J. M.) gaf í skyn, að jeg mundi sjer andvígur af því, að jeg teldi hann ekki hafa verið því hlyntan, að jeg yrði settur bankastjóri, þá hefir mjer satt að segja ekki dottið slíkt í hug, enda ekki leitt spurnir að tillögum hans um það mál. Er jeg og vanur, að haga svo framkomu í málum, sem jeg tel rjettast, en ekki eftir því, er mjer kynni að vera hagstæðast. Jeg hefi ekki hingað til skriðið fyrir neinum til þess að fá þetta starf eða annað, og get því haldið fullri einurð við hvern sem um er að eiga. Býst jeg því ekki við, að neinar hótanir breyti skoðun minni eða tillögum um það mál, sem hjer liggur fyrir.