16.08.1919
Neðri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (2873)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Háttv framsm. meiri hl. (E. Árna.) hneykslaðist á því, að við minni hluta menn flyttum mál þetta af svo miklu kappi. En jeg get ekki sjeð, að hjer hafi verið meira kapp á lagt en venjulegt er við flutning mála, nema ef honum kynni að finnast svona af því, að hann hafi átt erfitt með að andmæla skoðun minni hl.

Og jeg kannast alls ekki við að hafa farið með neinar gyllingar, og ef svo væri, þá hefði háttv. frsm. meiri hl. átt að færa einhver rök að þeim orðum sínum, að jeg hefði verið að gylla frv. um of. En það er svo langt frá því, að svo sje, því að jeg sagði, að ef jeg hefði mátt ráða samningunum, þá hefðu þeir orðið öðruvísi. En þar með hefi jeg viðurkent það, að mjer líki frv. ekki alls kostar vel. En það gefur að skilja, að þegar samningar fara fram milli tveggja aðilja, þá getur ekki annar öllu ráðið, heldur hljóta málalokin að verða eftir samkomulagi.

Bæði hjá háttv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) og háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) kom fram hræðsla við það, að heimila Íslandsbanka að auka hlutafje sitt.

En þeir ættu að setja sig í spor hluthafa bankans. Þá mundu þeir fljótt sjá, hve mikil hætta er á, að sú aukning verði í stórum stíl, ef þeir eru ekki vissir um að geta ávaxtað það fje hjer. En það fer aftur eftir því, hve mikill markaður verður hjer fyrir bankafje. Sá markaður getur nú orðið talsvert mikill, en án seðla getur enginn banki rekið stór viðskifti, og þá seðla mundi Íslandsbanki verða að fá hjá Landsbankanum.

Hættan er því engin.

Þá er annað „Consession“ bankans er alveg óbreytt fyrir því, þótt þetta frv. verði að lögum. Hann má ekki fást við fleiri starfsgreinar eftir en áður. Og það er einmitt eitt af aðalatriðum málsins, að „Consessionin“ helst óbreytt, og því getur bankinn jafnt hjer eftir sem hingað til gefið sig við gróðafyrirtækjum.

Háttv. frsm. meiri hl. (E. Árna.) sagði, að bankar greiddu nú alment annarsstaðar mikið fje í landsþarfir. Það er alveg rjett. En hann verður að gæta þess, að Íslandsbanki hefir nú einu sinni fengið lausn frá sköttum í 30 ár, og þann rjett er ekki hægt að taka aftur. Það er því ekki rjett að vitna til erlendra banka í þessu atriði.

Þetta gjald, sem bankinn á að greiða, verður því eingöngu fyrir þessar 2½ milj. kr. í seðlum, sem bankinn má gefa út. Og það er ekki rjett hjá háttv. frsm. meiri hl. (E. Árna.), að það gjald verði minkað. Hann verður að muna það, að seðlaútgáfan nemur nú um 9 miljónum, og fyrir það borgar bankinn sem næst til jafnaðar 70 þús. krónur á ári, en eftir frv. á hann að greiða 50 þús. kr. fyrir að eins 2½ miljón kr.

Og ef Íslandsbanki stendur sig við það að greiða 50 þús. kr. fyrir að gefa út 2½ miljón, þá ætti Landsbankinn ekki síður að standa sig við að gefa út það, sem um fram er, fyrir ekki neitt.

Háttv. framsm. meiri hl. (E. Árna.) heldur, að hjer sje stigið eitt spor áfram út í þá ófæru, sem komið var út í áður, en jeg held, að hjer sje sporið tekið til baka úr henni aftur, með því að taka aftur nokkuð af seðlaútgáfurjettinum.

Þá gerði hann lítið úr eftirlitsmönnunum. Taldi hann þá í mesta lagi geta haft eftirlit með því einu, að tryggingarreglunum væri fylgt.

En jeg vil leyfa mjer að benda á það, sem stendur í 7. gr. frv. um þetta atriði. Þar segir svo: „Þessir menn skulu hafa stöðugt eftirlit með seðlaútgáfu bankanna og að tryggingarreglunum sje fylgt, og skýra ráðherra þeim, sem bankamál bera undir, skriflega frá því, jafnskjótt og þeir verða einhvers þess varir, sem þeir telja hættulegt seðlabanka eða varhugavert starfsemi hans. Eftirlitsmenn þessir hafa aðgang að öllum bókum og skjölum bankanna, sjóði þeirra, verðbrjefum og málmtryggingu, þannig, að eigi fari í bága við afgreiðslu í bankanum. Nánari reglur um starf þessara manna setur ráðherra sá, er bankamál bera undir.“ Hjer er þeim vissulega falið fleira en að líta eftir því, að tryggingarreglunum sje fylgt. Þeir eiga að athuga allan rekstur bankans, og skýra ráðherra frá jafnharðan ef einhverju er ábótavant. En þar með er það gefið, að Íslandsbanki samþykkir að teljast seðlabanki eftir sem áður, þar sem hann skuldbindur sig til að vera háður slíku eftirliti.

Og hvers virði það er sjest best á niðurlagi 2. gr. þess frv., sem hjer á dagskrá næst á eftir. Þar stendur, að ráðuneytið geti felt úr gildi ályktun aðalfundar bankans, ef því finst hún fara í bága við tilgang hans, samkvæmt inngangsorðum laga nr. 66, 10. nóv. 1905. Það er því ekkert „Argumentum“ að segja, að Íslandsbanki sje ekki lengur seðlabanki. Hann hefir með þessu viðurkent, að hann væri það, og játast undir þær skyldur, sem því fylgja. Um það þarf því ekki að deila, hvort hann er það í raun og veru eða ekki.

En þetta er einmitt eitt af þeim atriðum, sem samninganefndin lagði mikla áherslu á, að bankinn yrði framvegis háður sama eftirliti sem seðlabanki.

Háttv. framsm. meiri hl. (E. Árna.) gat ekki neitað því, að heppilegra væri ef viðskiftakreppa yrði í landinu, að Landsbankinn hefði forystuna í peningamálum. En hann hjelt, að hann yrði ekki fær til þess, þó að hann fengi seðlaútgáfurjettinn. En það er misskilningur.

Það getur sá best, sem hefir seðlaútgáfurjettinn, því að ef viðskiftateppa kemur, er það, sem mest á ríður, að draga úr henni, en það má einmitt gera með hæfilegri seðlaútgáfu.

Þá virtist mjer háttv. framsm. meiri hl. halda því fram, að jeg hefði álitið, að Íslandsbanki vildi ekki þiggja frekari seðlaútgáfurjett. En jeg hefi aldrei sagt neitt í þá átt. Jeg held þvert á móti, að hann mundi verða því guðsfeginn. Það stendur líka í nál., að hann vildi það helst. Menn verða líka að muna það, að að eins annar bankastjórinn er samningunum fylgjandi, hinn er á móti þeim, og það er öllum kunnugt, að bankinn álítur sig tapa á því að missa þennan rjett.

Jeg hefi ekki talað um þá ábyrgð, sem hv. meiri hl. baki sjer með máli þessu. Ef nokkur hefir minst á slíkt, þá mun það hafa verið hæstv. forsætisráðherra (J. M.). En jeg get tekið undir það, að undarlegt virðist að hugsa ekkert um framhald þessa máls, þar sem nú er að eins hálfur mánuður eftir af tíma þeim, sem bankinn hefir heimild til aukinnar seðlaútgáfu. Það er þó vitanlegt, að vegna viðskiftanna má ekki draga inn þá seðla, sem fram yfir eru 2½ miljón kr., auk seðla Landsbankans.

Að jeg telji það móðgun gegn Íslandsbanka, ef frv. verður ekki samþ., það er hreinasta fjarstæða. Jeg veit, að annar bankastjórinn yrði því feginn, ef ekki báðir.

Jeg sagði að eins, að jeg teldi það hyggilegra að brjóta ekki að baki sjer þessa einu brú, sem hægt er um að fara. Og jeg vildi ekki, að þessi rökstudda dagskrá yrði borin undir atkv. fyr en við 2. umr. En það má gjarnan fyrir mjer. Jeg hefi enga persónulega „interesse“ fyrir málinu.

Jeg gleymdi í fyrradag að minnast á eitt skilyrðið. Það er innlag Íslandsbanka í Landsbankann. Í nál. hv. meiri hl. stendur svo, að það sje einungis Íslandsbanka í hag, og það sjeu hlunnindi, sem Landsbankinn hafi aldrei notið hjá Íslandsbanka. En það vill nú svo vel til, að jeg fór í morgun til hr. Sighvats Bjarnasonar bankastjóra, og átti tal við hann um þetta efni. Sýndi hann mjer þá reikning, þar sem Landsbankinn getur lagt fje inn í Íslandsbanka gegn 3% vöxtum.

Þetta telur Íslandsbanki alveg sjálfsagt fyrir seðlabanka, því að hann þarf ekki annað en að taka nýja seðla, ef tekið er óvænt út úr þessum reikningi.

Þetta er að vísu ekki í lögunum, en það eru samningar um það milli bankanna. Það sýnist ekki heldur neitt voðalegt að taka við peningum gegn 3% vöxtum, þar sem Landsbankinn greiðir nú 4% í sparisjóðsvexti og 4½% vexti á hlaupareikningum.

Að hjer sje um hlunnindi að ræða, sem Landsbankinn hafi aldrei notið hjá Íslandsbanka, er ekki rjett, þar sem samningar þeir, er jeg mintist á, eru nú orðnir 6–7 ára gamlir.

Þá talaði háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) langt mál, og skal jeg svara honum með nokkrum orðum.

Hann sagði meðal annars það, að Íslandsbanki gæti með því, að auka hlutafje sitt, neytt Landsbankann til að gefa út seðla takmarkalaust.

Bygði hann þá skoðun á 6. gr. frv. En hann verður að athuga það, að Landsbankinn á að takmarka seðlaútgáfuna eftir viðskiftaþörfinni, og færi Íslandsbanki fram á meira en hún krefur, þá er Landsbankinn ekki skyldur að láta seðlana af hendi.

Undir þennan leka er líka sett með 7. gr. frv., þar sem svo er ákveðið, að eftirlitsmennirnir skýri ráðh. jafnskjótt frá, ef þeir verða einhvers vísari, sem þeim þykir varhugavert.

Þessi hræðsla háttv. þm. (J. B.) er því bygð á tómum misskilningi.

Þá gerði háttv. þm. (J. B.) mikið úr bankaráðinu. Eftir skilningi hans var það einhver sjerstök fyrirmyndarstofnun.

Hann hefði nú ekki þurft að lesa upp ákvæðin um bankaráðið, því að mjer voru þau kunn áður. Allra síst hefði hann átti að leggja áherslu á það, að ráðh. mætti sitja á fundum bankastjórnarinnar, því að það hafa þeir aldrei gert og munu ekki heldur gera, þótt þeim sje heimilað það.

Jeg býst ekki við, að neinn ráðherra hafi svo litið við að fást, að hann geti verið bankastjóri jafnframt.

Þetta ákvæði er því að eins sett til ginningar, en hefir enga „praktiska“ þýðingu.

Þá las háttv. þm (J. B.) upp kafla úr ræðu eins látins konungkjörins þm. (H. Sv.), til að sýna það, að allir þessir menn, sem bankaráðið skipa, ættu að vera tryggir og hliðhollir landinu, þar á meðal ráðherrann sjálfur. En þegar þess er gætt, að þessi orð eru töluð árið 1901, meðan ráðherrann er danskur, þá fer þetta að líta dálítið undarlega út.

Þá taldi háttv. þm. (J. B.) það mjög hæpið, að eftirlitsmennirnir gætu haft nokkur áhrif. En jeg get ekki sjeð, að þeir standi ver að vígi en bankaráðið, þar sem stjórnarráðið setur reglugerð um starfsemi þeirra, en í bankaráðinu hafa verið menn utan af landshornum, sem hvergi hafa náð nærri að koma.

Annars er það sjerkennilegt við hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), að ef hann kemst í hita, hættir honum við að segja ýmislegt, sem hægt er að finna höggstað á, eins og t. d. það, að sjávarútvegurinn kynni að magnast svo, fyrir tilstilli Íslandsbanka, að landbúnaðurinn legðist niður. Þótt slíkt væri hugsanlegt, þá á Íslandsbanki, samkvæmt tilgangi sínum, að efla báða þessa atvinnuvegi, og ef hann ynni að eyðingu landbúnaðarins, hefði hann þar með fyrirgert rjetti sínum.

Annars mun þetta frekar sagt í hita en í fullri alvöru. Þá sagði háttv. þm. (J. B.), að seðlaútgáfan væri alveg óviss, hún gæti farið niður í 2% miljón kr., og gæti því orðið byrði fyrir Landsbankann. En það getur hún þó ekki orðið fyr en hún fer niður fyrir 2½ miljón kr., og vitaskuld fer hún aldrei svo langt niður, þar sem hún er nú 9 miljónir kr., og þó þarf að auka hana.

Háttv. þm. (J. B.) spurði, hvers vegna Íslandsbanki vildi ganga inn á frv., þar sem vitanlegt væri, að hann gerði það ekki, ef hann sæi sjer búið tjón af því.

Það er eðlileg spurning. En jeg vil þá benda honum á það, að að eins annar bankastjórinn var með því. Ástæðan er sú, að hann býst alls ekki við því, að þingið vilji láta bankann hafa seðlaútgáfurjettinn til frambúðar. En nú er komið að prentun seðlanna, og þarf því að fá málið afgert. Og þar sem bankinn vill gjarnan hafa þennan rjett áfram, þá er enginn vafi á því, að hann yrði því feginn, ef frv. yrði felt.

En það er ekki hægt að segja, nema hann kynni nú að setja einhver ný skilyrði, ef honum væri gefið undir fótinn með að fá rjettinn framvegis til að gefa út það, sem eftir er.

Jeg vil því ekki láta fella frv. áður en leitað er nýrra samninga við bankastjórnina um seðlaútgáfuna.

Enginn vafi er á því, að það væri í þágu Íslandsbanka, ef frv. væri felt.

Um seðlaútgáfuna er óhætt að segja, að hún heldur áfram að aukast. Þegar Íslandsbanki byrjaði, var honum leyft að gefa út 2½ miljón kr., og var þá haldið, að landið þyrfti ekki á meiru að halda í þessi 30 ár.

En ekki leið á löngu, þar til leyft var að auka hana, og nú er hún komin upp í 9 miljónir. Og það fer aldrei svo, að þessi aukning falli niður, þó nú sje hún af sjerstökum ástæðum. Á næstu 15 árum getur hún aukist stórum meira en fyrirsjáanlegt er, alveg eins og ekki var unt að sjá það fyrir 1903, að hún mundi aukast svo, sem nú er raun á orðin.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að slást fyrir máli þessu, meira en gert er. Jeg hefi reynt að benda á það, sem máli skiftir, en jeg get skilið, að það geri háttv. þm. deiga við að samþ. þetta frv., að bankastjórn Landsbankans snýst nú á móti því, eftir að hafa verið því fylgjandi áður. Sömuleiðis býst jeg við, að það sje ekki uppörfandi fyrir háttv. þm., að ráðherra sá (S. J.), sem lagði þetta frv. fyrir háttv. Alþingi, skuli aldrei láta sjá sig meðan á umræðunum stendur, og virðist liggja það í ljettu rúmi, þótt snúist sje á móti því.

Mjer liggur það nokkuð á hjarta, hvað gert verður við þetta frv. við þessa umr., því að jeg tel rjett, að reynt verði á nýjan leik að komast að einhverjum samningum um seðlaútgáfurjettinn í framtíðinni, og tel því rangt að drepa frv. að svo stöddu. Vildi jeg reyna að fá menn til að leiða þetta mál til lykta á eins heppilegan hátt og hægt er. Jeg segi fyrir mig, mjer finst það skifta töluverðu máli, hvort þessi rjettur er veittur Íslandsbanka 5–10 eða 15 ár. Um skemri tíma er ekki að tala, þar sem honum í nál. háttv. meiri hl. er gefið undir fótinn með, að hann muni fá þennan rjett í lengri tíma.