16.08.1919
Neðri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (2874)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þykir það harðla undarlegt, að sumir skuli halda, að mjer sje þetta mál mikið kappsmál, því í raun og veru er mjer það alls ekkert kappsmál. Fyrst og fremst hefði mjer aldrei dottið í hug að gefa samþykki mitt fyrir, að þetta frv. væri borið fram sem stj.frv., hefði ekki bankastjórn Landsbankans verið því þá fylgjandi. Mín skoðun var frá upphafi, að heppilegast væri, að Landsbankinn fengi annaðhvort allan seðlaútgáfurjettinn, eða þá, ef það reyndist ófáanlegt, með bærilegum kjörum, þá að Íslandsbanki fengi rjettinn, eftir því sem viðskiftaþörf krefur, fyrir meiri eða minni hluta þess tíma, sem eftir er af einkaleyfi hans.

Þetta álit mitt var bankastjórn Landsbankans kunnugt, er frv. varð til. En það, sem jeg tel ábótavant í þessu máli, og það, sem jeg kann ekki við hjá háttv. meiri hl. fjárhagsnefndar, er, að hún skuli koma með till. um að fella málið, án þess að gera ráð fyrir, hvað gera skuli eftir á. — Eins og hv. frsm. minni hl. (M. G.) tók fram, er nú svo komið, að eftir 14 daga er heimildin fyrir Íslandsbanka að gefa út fleiri seðla en 2½ miljón kr. úti. Af tilviljun hitti jeg hr. Sighvat Bjarnason bankastjóra í morgun; sagði hann mjer, að búið væri að gefa út alla þá seðla, sem má.

Þar sem það hefir komið fram hjá háttv. frsm. meiri hl. (E. Árna.), að honum lægi í ljettu rúmi, hvort þessi dagskrá yrði látin bíða þar til síðar, þá finst mjer sjálfsagt, að nefndin tali við bankastjórn Íslandsbanka og viti, hvort hún hefir ekki betra að bjóða. Og ef ekki vill ganga saman, að hún athugi þá, hvort ekki er hægt að laga þetta einhvern veginn. Væri það að minsta kosti sjálfsagt af nefndinni að komast fyrir álit þingsins um það, með hvaða kjörum ætti að láta Íslandsbanka halda seðlaútgáfunni. Ef nú þetta frv. er felt, hvað hygst þá nefndin fyrir? Ætlar hún þá á nýjan leik að byrja samninga við Íslandsbanka? Eða býst hún við, að Íslandsbanki leiti á náðir hennar og vilji fá aukinn seðlaútgáfurjett? Hitt gæti jeg hugsað, að Íslandsbanki yrði tregur til að byrja nýja samninga. Jeg býst ekki við, að þetta frv. gangi fram, og tel það hvorki eðlilegt eða rjett, úr því að Landsbankastjórnin er því nú andvíg. Er þetta mál var undirbúið í vetur, var bæði samið við stjórn Íslandsbanka og ráðgast við stjórn Landsbankans, af nefndinni, sem skipuð var. Um málsins gang veit jeg ekki, því málið heyrir ekki undir mig. Að vísu átti jeg hlut í því að skipa mennina í samninganefndina, og veit jeg ekki annað en að það sje viðurkent, að þessir menn hafi verið mjög vel valdir og leyst starfið mjög vel af hendi. Að jeg stend hjer að nokkru leyti fyrir svörum kemur af því, að jeg, samkvæmt ósk þingsins, mintist á þetta mál við hina erlendu bankaráðsmenn Íslandsbanka.