16.08.1919
Neðri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2877)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Það hefir margt verið rætt um þetta mál, og margt af því, sem sagt hefir verið að þessu sinni, er hið sama, eða svo svipað því, sem fram kom hjer áður, að jeg get farið fljótt yfir sögu.

Frsm. minni hl. (M. G.) drap á nokkur atriði, sem sýndust mæla með því, að frv. næði fram að ganga, og hann vildi gera lítið úr ástæðum okkar, sem erum á móti. Jeg ætla mjer ekki að tína upp einstök atriði úr ræðu hans, en vildi að eins drepa á örfáa megindrætti, sem mjer virðast skifta mestu máli, og snerta það, er jeg hafði látið áður um mælt sjerstaklega.

Fyrst drap hann á það, að engin ástæða væri fyrir þingið að óttast frv., þar sem annar bankastjóri Íslandsbanka legði á móti því. En á þessu er ekki að byggja. Því að hitt er jafnframt víst, að sá bankastjórinn, sem helst fer með fjárráð bankans, telur sig vera fúsan til að ganga að frv. Ef til vill er það af því, að hann býst við, að seðlaútgáfurjetturinn verði tekinn af bankanum, þegar þessi 15 ár eru liðin, sem eftir eru af leyfistímanum. Og jeg býst við, að hann fari nærri um það, að það verði gert. En hvort það verður gert fer eftir því, hversu þjóðin verður vönd að því, að velja sjer fulltrúa. En vonandi er, að henni takist það ekki álíka höndulega og 1901. En sennilega stafar þessi skoðun bankastjórans þó fremur af því, að hann geri ráð fyrir, að þjóðin hafi vitkast af þeirri reynslu, er hún hefir nú fengið af því, að hafa veitt erlendum hlutafjelagsbanka seðlaútgáfurjettinn; og jeg vona, að hann reynist þar sannspár. Jeg skal láta þá skoðun mína í ljós, að þó ekki verði fallist á þessi boð Íslandsbanka nú, þá er ekki óhugsandi, að takast megi að ná betri kjörum seinna.

Mjer finst ekki sambærilegur seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka við hina litlu aukning á seðlaútgáfurjetti Landsbankans með öllum þeim kvöðum, sem henni eiga að fylgja, því að þótt gera megi ráð fyrir, að Landsbankinn muni þurfa á allmiklum seðlum að halda, má ske að eins öðru hvoru, í framtíðinni, þá er það með öllu á huldu, og hagir geta hæglega breyst svo, að vonir manna um það bregðist með öllu. Þess ber vel að gæta, að Landsbankinn á að taka að sjer að uppfylla ýmsar skyldukvaðir við Íslandsbanka, sem ekki eru í neinu samræmi við hina litlu aukning seðlaútgáfurjettarins, sem hann á að öðlast. Það mundi að líkindum verða hagur fyrir Landsbankann að fá aukinn seðlaútgáfurjett sinn, eins og hjer er ráð fyrir gert, ef kvaðirnar fylgdu því ekki, og ef ekki væri bersýnilegt, að ríkissjóður, eða landið og þjóðin í heild, mundi bíða tjón við það. Þegar þetta tvent er tekið til greina, þá er ekki teflandi á tvær hættur með að láta Landsbankann taka upp á sig slíkar byrðar, sem geta orðið honum sjálfum til tjóns og bersýnilega til skaða fyrir ríkissjóð. Það er alt öðru máli að gegna, þótt Íslandsbanka þyki gott að hafa seðlaútgáfurjettinn, eins og honum er háttað. Það var frá upphafi sitthvað að hafa í umferð ein 750,000 kr. eða 2½ miljón króna, og síst að undra, þótt Íslandsbanki sje fús á að halda þeim seðlaútgáfurjetti sínum, með jafngóðum kostum og hann hefir hann. Hitt er nokkuð annað, þótt Landsbankinn sje ekki ginkeyptur fyrir að kaupa dýrum dómum rjettinn til að gefa út seðla og setja í umferð þá fyrst, þegar 2½ miljón króna af Íslandsbankaseðlum og 3/4 miljón króna af núgildandi Landsbankaseðlum eru allir komnir í umferð. Að óreyndu er ósýnt, hvað hann hefir upp úr þessari svo kölluðu tilslökun Íslandsbanka. Háttv. frsm. minni hl. (M. G.) drap á, að það ætti ekki að vera viðsjárvert fyrir Landsbankann, þótt hann þyrfti að taka á móti seðlum Íslandsbanka gegn 3% ársvöxtum, þar sem hann sæktist eftir að fá sparisjóðsfje gegn 4% ársvöxtum. Þetta skilyrði er þó auðsjáanlega sett til að tryggja hagsmuni Íslandsbanka, að hann þurfi aldrei að liggja með ávaxtalausa seðla. Reyndar hefi jeg aldrei lagt mikla áherslu á þetta atriði. En hlunnindi geta það þó ekki heitið fyrir Landsbankann að taka upp á sig þessa skyldukvöð.

Þá drap háttv. frsm. minni hl. (M. G.) á ummæli mín um 6. gr., þar sem Landsbankanum er gert að skyldu að greiða með seðlum sínum ókeypis og eftir þörfum í Reykjavík fjárhæðir, sem Íslandsbanki borgar inn í reikning Landsbankans í Kaupmannahöfn. Þessu eru engin takmörk sett, og gæti það komið Landsbankanum í koll að verða að greiða þannig fyrirvaralaust stórar fjárupphæðir. Háttv. þm. (M. G.) gerði ekki mikið úr þessu. Hann sagði, að girt væri fyrir þetta með ákvæðum 1. gr., þar sem Landsbankanum væri heimilað að gefa út seðla eins og viðskiftaþörfin krefði. En þá vil jeg spyrja: Hvar er tryggingin fyrir því, að viðskiftaþörfin sje rjett metin og hagur alþjóðar sje þar hafður fyrir augum? Og hver ákveður þessa viðskiftaþörf? (M. G.: Eftirlitsmenn og stjórnin). Það er nú alls ekki víst, að þessi þrjú ráð, stjórn, eftirlitsmenn og bankastjórn, verði ein um að ákveða hana, og þó svo væri nú, þá getur Íslandsbanki á skömmum tíma gerbreytt henni með athöfnum sínum, og beinlínis skapað með þeim þær viðskiftakröfur, sem Landsbankanum yrðu hættulegar. Setjum svo, að efnaðir vinir Íslandsbanka erlendis frá vildu fara að reka fiskveiðar í stórum stíl hjer við land, og að eins 4–5 þeirra kæmu hingað, með þó ekki væri meira en 5 trollara hver, og gerum enn fremur ráð fyrir, að þeir hefðu höfuðviðskifti sín við Íslandsbanka, hefðu mikil fjárráð og nægar tryggingar fyrir fjárlánum sínum. Ætli að það geti þá ekki komið fyrir, að það yrðu alt annað en smáræðis upphæðir, sem Íslandsbanki færi fram á að Landsbankinn borgaði út fyrir þá hjer á landi gegn greiðslum erlendis? Og mundu þá eftirlitsmennirnir ásamt landsstjórn og bankastjórn verða einir um það að ákveða, hver viðskiftaþörfin væri? Jeg held ekki. Jeg held, að Íslandsbanki, undir slíkum kringumstæðum, yrði sá, er ákvæði viðskiftaþörfina ekki síður.

Þetta gæti beinlínis orðið Landsbankanum hættulegt, þar sem vel gæti fyrir komið, að greiða þyrfti heilan tug miljóna króna, eða meira. Ætli hin þrjú háttsettu ráð gætu ekki orðið að lúta í lægra haldi. Og ætli það sje ekki ærið óvíst, að eingöngu yrði höfð fyrir augum viðskiftaþörf Íslendinga. Hjer gæti orðið greidd gata fyrir stórfeldum atvinnurekstri útlendinga hjer á landi, en flestir munu sammála um, að áhrif hans muni oss eigi alls kostar holl. Jeg segi ekki, að þetta verði; en það getur orðið. En vísastir mundu þó þeir menn verða til þess að styðja að því, sem fyrst og fremst hugsa um að fá sem mestan arð af fje sínu, og hingað til hefir sjávarútvegurinn gefið góðan ágóða, svo að búast má við, að hluthafar bankans hefðu ekkert á móti því, þótt bankinn gerði nokkuð mikið að því að leggja fje í þennan atvinnuveg.

Höfuðskoðanamunur okkar háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sýnist vera sá, að jeg tel hann of bjartsýnan um hagnað Landsbankans af því að ganga að frv. þessu, og ekki vera eins tortrygginn og jeg er. En mín sannfæring er, að hjer ríði á að vera varfærinn og hafa vaðið fyrir neðan sig. Og ekkert beri að gera í þessu máli, nema maður sje viss um einhvern vinning, að minsta kosti viss um að bíða ekki tjón af breytingunni.

Þá drap hv. þm. (M. G.) á orð mín um bankaráðið, og gerði hann ekki mikið úr getu þess að stjórna Íslandsbanka. Jeg hefi aldrei haldið því fram, að það hafi hingað til gert undur og stórmerki. En það verð jeg að segja, að þótt hingað til hafi Alþingi rækt miður en skyldi skyldu sína að vanda bankaráðskosningu, og bankaráðsmannanna þar af leiðandi lítið gætt, þá er ekki gerandi ráð fyrir, að það haldi hinu sama áfram. En nú er einmitt tækifæri til þess fyrir þingið að vakna og fara að hugsa sig vel um að velja þá menn eina í bankaráðið, sem hafa vit til og ráð á að láta þar til sín taka. Ef alment ætti að hlíta rökleiðslu hv. þm. (M. G.) í þessu, þá mætti með sama rjetti segja, að ef einhvern tíma hefir illa tekist til með eitthvað, þá hljóti hinu sama að halda áfram. Jeg vona t. d., að þótt Íslendingar hafi einu sinni slysast til að selja útlendingum seðlaútgáfurjett í hendur, þá muni þeir ekki gera það í annað sinn. Það er annað, þótt ýmsum sýnist ekki keppikefli að fá þetta örlitla brot af seðlaútgáfurjetti, sem hjer er á boðstólum, með öllum þeim skyldum og kvöðum, sem honum eiga að fylgja. Hv. þm. (M. G.) sagði, að jeg hefði sagt í hita það, sem jeg talaði um sjávarútveginn, þegar þetta mál var hjer áður til umræðu, og ótta þann, sem af honum gæti staðið. Nei, langt í frá, jeg sagði það með mestu ró, að vel yfirhuguðu ráði. Þó er það eigi svo að skilja, að mjer standi alveg á sama, hvernig um þau mál fer, þegar jeg ætla, að heill þjóðar minnar sje má ske háski búinn; enginn skal ætla, að jeg horfi hálfsofandi og með jafnaðargeði á slíkt. En því held jeg fram, að svo geti sjávarútvegurinn orðið voldugur, að til skaða verði fyrir landið í heild sinni. Hv. þm. (M. G.) sagði, að skylda bankans væri að styðja atvinnuvegi landsins. Það er alveg rjett, en svo gæti bankinn stutt einn atvinnuveg, að það yrði þjóðinni í heild sinni til tjóns.

Tökum til dæmis byggingu raforkuvera. Engum getur dulist það, að hin mesta nauðsyn væri á stuðningi til þess að byggja rafstöðvar til hitunar, ljósa, smáiðnaðar, og til samgöngubóta. Stuðningur í því skyni væri mjög nauðsynlegur og góður. En ef mjög mikið fjármagn yrði sett í þessi fyrirtæki, ráðist væri t. d. í stóriðju, og við rjeðum engu um þær framkvæmdir, þá gæti það orðið okkar þjóð til hins mesta tjóns. Þannig er takmarkalítill fjáraustur til einhvers atvinnuvegar, án þess að þess sje nokkuð gætt, hver áhrif það kann að hafa á þjóðarhaginn í heild og aðrar atvinnugreinar, eitt hið hættulegasta vopn á allan þjóðarhag og menning. Eins og hæfilegt fje til stuðnings eins atvinnuvegar er hin mesta lyftistöng fyrir þjóðina, þá getur fjáraustur útlendinga, með hagsmuni þeirra einna fyrir augum, til einnar atvinnugreinar, orðið til hinnar mestu bölvunar fyrir þjóðfjelagið.

Með þessu frv., ef það verður samþ., er Íslandsbanki nær einráður um athafnir sínar.

Því hefir verið skotið hjer fram, að allmargir gerðust nú bankafróðir í þessari deild, en það þarf engan bankafróðleik til þess að sjá agnúana á þessu máli, það þarf ekki nema heilbrigða skynsemi, og það þarf ekki að fæla neinn frá að fella frv. þetta, að Ísland þarfnist meiri seðla en Íslandsbanki á rjett á að gefa út, því að eins og nú er ástatt, hvílir á honum skylda til að sjá landinu fyrir nægum seðlaforða, ef krafist er. Þar sem meiri hl. fjárhagsnefndar hefir verið álasað fyrir það, að hann hafi ekki reynt að komast að samningum við Íslandsbanka um aukna seðlaútgáfu, þá er því til þess að svara, að það er ekki heimtandi af fjárhagsnefnd, að hún fari að vasast í því, sem er hlutverk og skylda landsstjórnarinnar að gera. Jeg held, að það hefði ekki verið ofverk stjórnarinnar að grenslast eftir því hjá fjárhagsnefnd, hvernig hún liti á þetta mál, og haga sjer svo eftir því. (Forsætisráðh.: Þessu er beint að atvinnumálaráðherra (S. J.), en hann er ekki við; hv. þm. (J.B.) vill má ske láta kalla á hann). Það var ekki atvinnumálaráðherra (S. J.), sem var að finna að þessu, heldur annar ráðherra, og hann er hjer við. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) heimtaði af okkur, að við færðum rök fyrir mótstöðu okkar gegn málinu. Það höfum við nú leitast við að gera. En jeg sagði um daginn, að það væru sum atriði þessa máls svo vaxin, að ekki væri hægt að staðhæfa um þau fyrirfram; reynslan yrði að skera úr um þau, og yrði að dæma um þau eftir líkum. En hvað önnur atriði snertir, þá er þeim þannig háttað, að þótt hjer væri einhver stór bankafræðingur á þingbekkjunum, þá efast jeg um, hvort hann teldi sig hafa tíma til að útskýra þau, og eigi efast jeg síður um það, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mundi hafa not af svo langri ræðu, sem til þess mundi þurfa.

Háttv. þm. (G. Sv.) hafði það eftir mjer, að jeg hefði sagt, að engin dæmi væru til, að „privat“-banki hefði jafnmikil rjettindi eins og nú ætti að fara að veita Íslandsbanka. Hann mun ekki herma orð mín fullkomlega rjett. Þó skal jeg ekki um það deila. En jeg vil spyrja, hvort nokkurt dæmi muni finnast þess, að „privat“-banki, þar sem meiri hluti hlutafjárins er útlend eign og nær allur ágóðinn af því rennur til útlendinga, njóti annara eins hlunninda og Íslandsbanki nýtur hjer. Má ske vildi hv. þm. (G. Sv.) nefna mjer þá banka, ef hann þekkir þá. En jeg vil bæta því við, að þótt einhversstaðar fyndust dæmi slíks, þá er það síst eftirbreytnisvert, og ekki mundi það talinn þjóðarhagur. Hitt er miklu heillavænlegra, að bankastarfsemin sje sem mest í höndum innlendra manna, en ekki útlendinga, og frá því sjónarmiði er rjettara að takmarka fremur starfsemi Íslandsbanka en að færa hana út. En með þessu frv. má fullyrða, að hún sje ekki takmörkuð, þótt líklega sje ætlast til þess af meðmælendum þessa frv., því sjálfsagt tel jeg, að í góðu skyni hafi frv. verið flutt inn á þing. Þar sem bankastjórninni er ekki um að taka við þessari aukningu á seðlaútgáfurjetti Landsbankans, þá þykir mjer líklegast, að það komi til af því, að hún líti á fleira en hag bankastofnunarinnar einnar; bankastjórarnir munu líta á þjóðarhaginn í heild sinni, og telja það óhagkvæmt fyrir hann, að Íslandsbanki fái hlunnindi þau, sem frumv. vill veita honum, og fyrir þá sök vilji þeir ekki keppa eftir auknum seðlaútgáfurjetti handa Landsbankanum, þótt þeir að öðrum kosti hefðu gjarnan viljað fá hann.

Það er ekki rjett að draga þá ályktun, sem hv. þm. (G. Sv.) vill gera af því, að bankastjórnin vill ekki taka við þessari aukningu seðlaútgáfurjettarins, að hún vilji ekki seðlaútg.rjettinn, og af því hún vill ekki fallast á þetta mál, þá hafi ekki aukist bankaþekkingin í bankanum við þá breyting, er gerð var á stjórninni fyrir skömmu. (G. Sv.: Jeg dró enga ályktun; jeg spurði bara). Ætlast hv. þm. (G. Sv.) til að við förum að svara þeirri spurningu, sem hann treystir sjer ekki til að svara sjálfur? Eða ætlast hann má ske til, að bankastjóri sá, sem hjer á sæti í deildinni, fari að svara henni?