16.08.1919
Neðri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2878)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Jón Jónsson:

Við umræður um þetta mál þarf að athuga, hvað vakað muni hafa fyrir þinginu, þegar það fór fram á það við stjórnina að rannsaka málið og leita samninga við Íslandsbanka. Jeg hygg, að fyrir þinginu hafi vakað, að viðsjárvert væri að veita Íslandsbanka ótakmarkaðan seðlaútgáfurjett, einkum þar sem eftirlitið með bankanum væri ekki eins gott eins og það þyrfti og ætti að vera. Þetta var eflaust ástæðan fyrir því, að tekið var að semja við Íslandsbanka. Árangurinn af þeim samningum er sá, að hjer liggja fyrir tvö tilboð frá bankanum, sem þingið getur kosið um. En gallinn er sá, að nefnd sú, sem um málið hefir fjallað í þinginu, hefir að eins tekið afstöðu til annars tilboðsins, en ekkert sagt um, hvort hitt tilboðið, tilboðið, sem samninganefndin talar um, sje aðgengilegt eða ekki. Annað tilboðið er um kaup á hindrunarrjetti Íslandsbanka, að aðrir seðlar sjeu gefnir út hjer á landi en hans en hitt um kaup á öllum seðlaútgáfurjetti Íslandsbanka. Nefndin í þinginu hefir nú snúið sjer að fyrra tilboðinu, og vill meiri hl. hafna því, en minni hl. taka því. Um hitt tilboðið ræðir hún ekki, og þess hefir lítið verið getið í umræðunum um málið. Hygg jeg, að vert væri að athuga það betur en gert hefir verið.

Það hefir komið fram við umræðurnar, að hætta væri á, að upp mundu koma peningavandræði hjer á landi og viðskiftakreppa. Með þetta fyrir augum er rjett að athuga það, hvort vjer mundum betur eða verfarnir með því, að Íslandsbanki hefði nokkum hluta af seðlaútgáfurjettinum í sínum höndum og Landsbankinn nokkurn hluta, eða hvort eigi mundi betra, að einn banki hefði hann allan. Því sýnist sjálfsagt að athuga hitt tilboðið betur en gert hefir verið hingað til, áður en málið er útkljáð í deildinni.

Mjer skilst sem sje, að það sje töluvert aðgengilegra, tilboðið um afsal alls seðlaútgáfurjettarins af hálfu Íslandsbanka, en hitt, um útgáfurjett að því, sem er fram yfir 2½ milj. kr. Þótt það sje töluverð upphæð að borga út í einu, og þó að bankinn kunni að setja það fyrir sig að borga 350 þús. kr. fyrir seðlaútgáfurjettinn, þá getur ríkissjóður það. Hann getur tekið lán til þess. Vjer lifum á lánum nú hvort sem er, og þetta er ekkert stórfje, miðað við allar þær miljónir, sem nú eru í veltunni hjá okkur sem lánsfje.

Mjer hefði því virst eðlilegri leið, að hv. fjárhagsnefnd tæki málið út af dagskrá nú og velti því fyrir sjer, hvort ekki væri rjett, að kaupa allan seðlaútgáfurjettinn með þeim kjörum, sem boðin eru. Og ef henni litist svo, gæti hún lagt álit sitt um það fyrir deildina, og þá yrðu greidd atkv. með eða móti, eftir því sem skoðanir falla.

Jeg skal taka það fram um frv. þetta, að mjer finst það ekki aðgengilegt. Mjer virðist hálfankannalegt, að tveir seðlabankar sjeu í landinu. Þá virðist mjer sem tveir bankar sjeu í landinu, er skift sje á milli ábyrgðinni um seðlaútgáfu. En það tel jeg ekki heppilegt.

Jeg er hræddur um, að nefndin og aðrir háttv. þm. hafi sett of mjög fyrir sig þessa yfirlýsingu Landsbankastjórnarinnar, að bankanum væri um megn að greiða þessi 350 þús. kr. Það er í sjálfu sjer ekki stór upphæð, í samanburði við það, ef hægt væri að koma í veg fyrir, að Íslandsbanki hafi ótakmarkaða seðlaútgáfu í framtíðinni. Og það fer eftir því, hvernig Landsbankanum er stjórnað, hvort nokkur hætta getur af því risið að greiða svo mikið fyrir seðlaútgáfurjettinn. Vjer höfum borið kvíðboga fyrir, að ekki mundi fást nægileg trygging fyrir því, að seðlar bankans væru tryggir, hvað sem í slægist fyrir okkur. Það er sú hætta, sem við höfum haft fyrir augum. Og einmitt af því, að bankaráð Íslandsbanka hefir verið kosið eins og hv. þm. V. Sk. (G. Sv.) tók fram, þá er sjerstök ástæða til að vera kvíðandi. Það er nú ekki annað en hjegómi, bitlingar handa einstökum mönnum. En vitanlega mætti kippa þessu í lag og gera þær kröfur, að þeir menn, sem kosnir eru í bankaráðið, hafi eftirlit með bankanum. Hingað til hefir alt verið átt undir bankastjórn Íslandsbanka. Hefir það enn ekki orðið að klandri. En fyrst vjer eigum að lögum rjett til þess að líta eftir rekstri bankans, á eftirlitið vitanlega að vera raunverulegt eftirlit.

Með tilliti til frv. skal jeg lýsa því yfir, að jeg tel rangt að miða við bankaráðið, eins og það nú er. Og jeg vil alls ekki gera lítið úr því, að við höfum yfirtökin í bankaráðinu um alt það, er að rekstri bankans lýtur, þótt það hafi verið lítils virði undanfarið.

Jeg vil því skjóta því til nefndarinnar, að hún taki þetta mál út af dagskrá og athugi báðar leiðirnar í þessu máli, og leggi síðan fram skriflegt álit um það, hvort fyrri leiðin sje farandi eða ekki.